Innlent

Konur, efri stéttin og landsbyggðin jákvæðari gagnvart Facebook

Birgir Olgeirsson skrifar
Rúmlega 30% landsmanna eru hvorki jákvæð né neikvæð og mikill minnihluti, eða um 20% er neikvæður gagnvart Facebook.
Rúmlega 30% landsmanna eru hvorki jákvæð né neikvæð og mikill minnihluti, eða um 20% er neikvæður gagnvart Facebook. Vísir/Daníel
Tæplega helmingur landsmanna er jákvæður gagnvart Facebook, þrátt fyrir að neikvæð umræða um samfélagsmiðilinn hafi verið áberandi síðustu misserin. 

Rúmlega 30% landsmanna eru hvorki jákvæð né neikvæð og mikill minnihluti, eða um 20% er neikvæður gagnvart Facebook. 

Þetta sýnir ný rannsókn EMC Rannsókna. Rannsóknin var framkvæmd 12.-24. ágúst síðastliðinn og var ímynd 65 fyrirtækja á Íslandi mæld. Alls voru 1170 svarendur í rannsókninni sem endurspegla þýði Íslendinga með tilliti til kyns, aldurs og búsetu.

Þegar niðurstöðurnar fyrir Facebook eru bornar saman við niðurstöður 64 annarra fyrirtækja á Íslandi kemur í ljós að ímynd samfélagsmiðilsins er ekki ósvipuð ímynd meðalfyrirtækis í mælingunni. Álíka hátt hlutfall er jákvætt gagnvart meðalfyrirtækinu og er jákvætt gagnvart Facebook.

Konur, fólk úr efri stéttum og þeir sem búa á landsbyggðinni eru ívið jákvæðari gagnvart Facebook en samanburðarhóparnir. 

Gísli Steinar Ingólfsson, framkvæmdastjóri EMC rannsókna, segir að fremur jákvæð viðhorf gagnvart Facebook veki athygli.„Þrátt fyrir mikla og neikvæða umræðu um samfélagsmiðilinn og víðfeðm áhrif hans kemur Facebook ágætlega út í samanburði við mörg fyrirtæki á Íslandi. Þetta bendir til þess að margir leggi meiri áherslu á jákvæð áhrif samfélagsmiðlarisans en neikvæð. Fróðlegt verður að fylgjast með þróuninni til framtíðar og hvort viðhorfin breytist samhliða aukinni umræðu“ segir Gísli Steinar.  
Fleiri fréttir

Sjá meira


×