Erlent

Sala á skotheldum skólatöskum eykst í kjölfar skotárása

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sala á skotheldum skólatöskum tekur iðulega kipp í kjölfar skotárása í Bandaríkjunum.
Sala á skotheldum skólatöskum tekur iðulega kipp í kjölfar skotárása í Bandaríkjunum. Vísir/Getty
Fyrirtæki á bandarískum markaði, sem selja meðal annars skothelda bakpoka og skólatöskur, hafa séð mikla aukningu í sölu í kjölfar skotárása í Bandaríkjunum. Nýverið létust 31 í árásum í El Paso, Texas og Dayton, Ohio. Deilt er um áhrif og virkni tasknanna og fyrirtækin hafa verið gagnrýnd fyrir markaðssetningu sína.

Söluaukningin er talin stafa af því að senn líður að skólasetningu og margir foreldrar í landinu séu uggandi yfir þeim fjölda skotárása sem orðið hafa í skólum í Bandaríkjunum. Þeir leiti allra leiða til þess að tryggja öryggi barna sinna þar sem þeim finnist bandarískir stjórnmálamenn ekki hafa brugðist við þeim fjölda skotárása sem hefur átt sér stað í landinu.

CNN hefur eftir þremur fyrirtækjum sem framleiða skotheldar skólatöskur, Guard Dog Security, Bullet Blocker og TuffyPacks, að sölutölur hafi farið upp um tvö til þrjú hundruð prósent í kjölfar árásanna, sem áttu sér stað 3. og 4. ágúst síðastliðinn.

Steve Naremore, forstjóri TuffyPacks, sagði í samtali við CNN að sala á skotheldum töskum ykist alltaf í kjölfar skotárása sem fara hátt í fjölmiðlum. Til að mynda hafi söluaukningin í kjölfar fyrrnefndra árása verið um þrjú hindrið prósent.





Þrátt fyrir að fyrirtækin markaðssetji töskur sínar sem skotheldar er margt athugavert við þá framsetningu. Fyrirtækin hafa ítrekað verið gagnrýnd fyrir að hafa auglýst vörur sínar sem skotheldar, án þess þá að hafa framkvæmd fullnægjandi próf, líkt og gert er þegar um er að ræða búnað lögreglu og herliðs.

Þá hefur Yasi Sheikh hjá Guard Dog sagt að töskur frá fyrirtæki hans veittu takmarkaða vernd gegn sjálfvirkum rifflum, en notkun þeirra í skotárásum í Bandaríkjunum gerist æ tíðari.

Einnig hafa sumir gagnrýnt þá stöðu sem uppi er í umræðunni um byssulöggjöf Bandaríkjanna með því að benda á fyrirtækin sem um ræðir og segja fáránlegt að fólk þurfi að gera ráð fyrir skotárásum þegar það verslar skólaföng fyrir börnin sín. Meðal þeirra er forsetaframbjóðandinn Kamala Harris.

„Innkaupalistinn fyrir skólabyrjun ætti ekki innihalda skothelda skólatösku,“ er haft eftir Harris á Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×