Fótbolti

Glódís og stöllur hennar juku forskotið á toppnum | Góður sigur Kristianstad

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Glódís lék allan leikinn í vörn Rosengård.
Glódís lék allan leikinn í vörn Rosengård. vísir/getty

Glódís Perla Viggósdóttir var á sínum stað í vörn Rosengård sem vann 3-0 sigur á Limhamm Bunkeflo í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Rosengård er með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar en liðið hefur unnið níu af fyrstu 13 leikjum sínum á tímabilinu.

Andrea Thorisson lék síðustu 13 mínúturnar fyrir Limhamm Bunkeflo sem er í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar.

Íslendingaliðið Kristianstad bar sigurorð af Vaxjo, 3-1. Sif Atladóttir lék allan leikinn í vörn Kristianstad en Svava Rós Guðmundsdóttir var á varamannabekknum. Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad sem er í 6. sæti.

Það gengur hvorki né rekur hjá Djurgården sem tapaði fyrir Eskilstuna United, 4-2. Djurgården hefur tapað fimm leikjum í röð og er í 10. sæti deildarinnar. Ingibjörg Sigurðardóttir lék allan leikinn fyrir Djurgården en Guðrún Arnardóttir var á bekknum.

Anna Rakel Pétursdóttir kom inn á sem varamaður á 35. mínútu þegar Linköping laut í lægra haldi fyrir Kungsbacka, 2-1. Þetta var fyrsti sigur Kungsbacka í deildinni. Linköpings er í 5. sæti.

Matthías Vilhjálmsson lék allan leikinn fyrir Vålerenga sem gerði 1-1 jafntefli við Stabæk í norsku úrvalsdeildinni.

Vålerenga, sem hefur aðeins fengið tvö stig af níu mögulegum í síðustu þremur leikjum, er í 6. sæti deildarinnar.

Kjartan Henry Finnbogason var í byrjunarliði Velje sem laut í lægra haldi fyrir Frederica, 0-1, í dönsku B-deildinni. Velje er í 7. sæti deildarinnar með fjögur stig eftir fjóra leiki.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.