Fótbolti

Frábær endurkoma strákanna hans Guðjóns sem eru komnir á toppinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðjón hefur gert góða hluti með NSÍ.
Guðjón hefur gert góða hluti með NSÍ. vísir/daníel rúnarsson
Strákarnir hans Guðjóns Þórðarsonar í NSÍ Runavík eru komnir á topp færeysku úrvalsdeildarinnar eftir 2-4 útisigur á ÍF Fuglafirði í kvöld.

NSÍ er með eins stigs forskot á Klaksvík og B36 Þórshöfn. Klaksvík á leik til góða á bæði NSÍ og B36.

NSÍ komst yfir strax á upphafsmínútu leiksins í kvöld þegar Norðmaðurinn Peder Nersveen skoraði sitt annað mark í síðustu þremur leikjum.

ÍF jafnaði á 33. mínútu og komst svo yfir með marki úr vítaspyrnu í uppbótatíma fyrri hálfleiks.

Klæmint Olsen jafnaði fyrir NSÍ á 73. mínútu. Aðeins mínútu síðar fékk David Langgaard, leikmaður ÍF, sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Á lokamínútunni kom Pól Jóhannus Justinussen, fyrrverandi leikmaður Vals, NSÍ yfir. Og þegar sjö mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma gulltryggði Olsen sigur NSÍ með sínu öðru marki. Hann hefur farið mikinn á tímabilinu og skorað 19 mörk í 17 deildarleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×