Innlent

Opnun fyrir bílaumferð um Hverfisgötu frestast um nokkrar vikur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir við vestari enda Hverfisgötu í sumar.
Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir við vestari enda Hverfisgötu í sumar. Reykjavíkurborg

Endurgerð Hverfisgötu milli Ingólfsstrætis og Smiðjustígs hefur tafist en gert er ráð fyrir að hleypa bílaumferð á götuna eftir miðjan september í stað lok ágústmánaðar. Til að byrja með verður opið fyrir bílaumferð í aðra áttina og jafnframt verður opnað fyrir bílaumferð um gatnamót Hverfisgötu og Ingólfsstrætis.

Áfram verður unnið við gangstéttar og ýmsan frágang en vel merktar gönguleiðir verða jafnframt tryggðar á meðan framkvæmdum stendur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

„Þessa dagana er unnið við fráveitu og endurnýjun hitaveitulagna en stefnt er að því að fylla að þessum nýju lögnum í næstu viku eða fyrir Menningarnótt. Gert er ráð fyrir að gatan verði opin fyrir gangandi á Menningarnótt á þjappaðri fyllingu. Stefnt er að malbikun upp úr mánaðarmótum en í framhaldi af því verður unnið við hellulögð svæði fyrir framan Þjóðleikhúsið og á gatnamótum Hverfisgötu og Ingólfsstrætis,“ segir í tilkynningunni.

„Gönguleiðir meðfram framkvæmdasvæðinu hafa verið og verða áfram opnar á framkvæmdatíma. Aðkomuleið að bílastæðahúsinu Traðarkoti er opin og hefur henni verið haldið opinni á framkvæmdatímanum að frátöldum einum degi þegar tengja þurfti lagnir.“

Borgaryfirvöld hafa sætt töluverðri gagnrýni vegna skipulags og seinagangs við framkvæmdirnar. Kaffihúsaeigandi við Hverfisgötu segist fyrst hafa fengið tilkynningu um framkvæmdirnar fimm dögum áður en þær hófust í maí. Lítill skilningur sé á fjölskyldufyrirtækjum sem reyni að hafa lifibrauð af rekstri við götuna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.