Innlent

Kemur vel til greina að stjórnarmenn segi af sér vegna Árskógamálsins

Birgir Olgeirsson og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Sigríður Snæbjörnsdóttir, varaformaður Félags eldri borgara.
Sigríður Snæbjörnsdóttir, varaformaður Félags eldri borgara. Vísir/Sigurjón
Sigríður Snæbjörnsdóttir, varaformaður félags Eldri borgara, segir það koma vel til greina að hluti stjórnar félagsins segi af sér vegna mistaka sem gerð voru við áætlun byggingar íbúða fyrir félagsmenn að Árskógum í Reykjavík.

Í samtali við Vísi segist Sigríður skilja vel gremju þeirra kaupenda sem eru nú krafðir um milljóna aukagreiðslu fyrir íbúðirnar vegna 400 milljóna aukakostnaðar sem varð til vegna vanáætlunar byggingarnefndar félagsins.

Byggingarnefndin gerði ekki ráð fyrir fjármagnskostnaði og vöxtum á því langa tímabili sem tók að reisa þessar íbúðir en upphaflega átti framkvæmdin að kosta 3,8 milljarða en fór fjögur hundruð milljónir fram úr áætlun.

Var því ákveðið að ganga á kaupendur þessara 68 íbúða og þeir beðnir um að fallast á að greiða milljónir til viðbótar ellegar yrði fallið frá kaupunum. Hefur Félag eldri borgara í Reykjavík fundað með hverjum kaupanda einslega en þegar þetta er ritað hefur verið rætt við um 30 kaupendur og hafa 20 til 25 þeirra fallist á skilmálanna að sögn Sigríðar. Aðrir hafa boðað að þeir ætli að höfða mál á hendur félagsins vegna þessa.

Félag eldri borgara reisti 68 nýjar íbúðir í Árskógum í Breiðholti fyrir félagsmenn sína.Vísir/Friðrik
Sigríður segir kaupendum í sjálfsvald sett hvað þeir gera, hvort þeir fallist á skilmálanna, skili íbúðinni og fái endurgreitt eða höfði mál. Hún bendir þó á að þrátt fyrir þessa hækkun séu þeir sem kaupa íbúðirnar enn að fá þær á afar hagstæðu verði. 

Hún segir félagið ekki burðugt til að standa undir þessu fjártjóni eitt og sér, ef höfðað verði mál sé ekki mikið að sækja hjá félaginu sem er rekur sig á félagsgjöldum og á hluta í húsi þar sem það er með skrifstofur. Hefur því verið haldið fram að félagið fari í þrot verði höfðað mál gegn því.

Sigríður segir stjórn félagsins hafa skipað byggingarnefnd og stjórnin sé auðvitað ábyrg fyrir því sem byggingarnefnd gerir. „Við erum ekkert að reyna að skorast undan þessari ábyrgð og erum mjög leið yfir þessu. Við skiljum kaupendur mjög vel.“

Kemur til greina að hluti stjórnar segi af sér?

„Mér finnst það alveg vera í myndinni, algjörlega,“ svarar Sigríður.

Hún segir félagið afar leitt yfir þessari stöðu. „Þetta er bara ofboðslega leiðinlegt að þetta skyldi hafa gerst og því miður er þetta bara svona og við getum ekkert gert nema að krafsa okkur úr málinu.“


Tengdar fréttir

Segir FEB beita vafasömum vinnubrögðum

Hæstaréttarlögmaður segir Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, FEB, beita vafasömum vinnubrögðum með því að krefja kaupendur íbúða fyrir aldraða í Árskógum um hærra kaupverð.

Eldri borgarar sæta afarkostum

Í síðustu viku voru foreldrar mínir full tilhlökkunar að flytja inn í nýju íbúðina sína. Í dag eru þau brotin og húsnæðislaus. Forsaga málsins er sú að þau festu sér kaup á íbúð í Árskógum sem Félag eldri borgara (FEB) lét byggja fyrir félagsmenn sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×