Innlent

Má búast við slyddu til fjalla á sunnudag og mánudag

Birgir Olgeirsson skrifar
Norðanátt verður ríkjandi að minnsta kosti fram undir miðja næstu viku.
Norðanátt verður ríkjandi að minnsta kosti fram undir miðja næstu viku. Vedur
Norðanátt verður ríkjandi að minnsta kosti fram undir miðja næstu viku. Í dag og á morgun er vindhraðinn meinlítill eða á bilinu 5-13 m/s. Með fylgir rigning eða súld á Norður- og Austurlandi, en þó hvorki samfelld né í miklu magni. Hitinn á þessum slóðum 5 til 10 stig. Sunnan heiða verður áfram sólríkt og hiti allt að 16 til 17 stig þar sem best lætur á Suðurlandi. Þetta kemur fram í hugleiðingu veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Nú í morgunsárið er stór og mikil lægð með öflugu regnsvæði að færa sig yfir Bretlandseyjar og verður lægðin þar viðloðandi um helgina. Knattspyrnuunnendur munu ef til vill taka eftir vindi og/eða rigningu í svipmyndum frá leikjum helgarinnar á Englandi.

Spár gera ráð fyrir að afsprengi umræddrar Bretlandslægðar gerist óþægilega nærgöngult skammt norðaustur af Íslandi á sunnudag og mánudag. Þá er gert ráð fyrir að bæti í styrk norðanáttarinnar hjá okkur og aukist úrkoman norðanlands og einnig kólnar enn frekar. Það má semsagt búast við talsverðri rigningu norðanlands á sunnudag og mánudag, en slyddu eða snjókomu til fjalla með tilheyrandi vosbúð. Þeir sem hyggja á ferðalög um norðanvert hálendið og á fjöllum norðanlands ættu því að fylgjast vel með veðri og búa sig eftir aðstæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×