Fótbolti

Nýi knattspyrnustjórinn hneig niður á hliðarlínunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mihai Popescu, varnarmaður Dinamo Búkarest, fylgist áhyggjufullur með afdrifum knattspyrnustjóra síns.
Mihai Popescu, varnarmaður Dinamo Búkarest, fylgist áhyggjufullur með afdrifum knattspyrnustjóra síns. Skjámynd/Telecom Sports
Rúmenska félagið Dinamo Búkarest þurfti að klára leik helgarinnar án knattspyrnustjóra síns sem var fluttur burtu í sjúkrabíl í miðjum leik.

Eugen Neagoe, knattspyrnustjóri Dinamo Búkarest, hneig niður á hliðarlínunni eftir um hálftímaleik þegar Dinamo Búkarest mætti Universitatea Craiova í gær.

Eugen Neagoe er 51 árs gamall. Honum fór að líða illa eftir 25 mínútna leik. Hann fékk fyrst vatn að drekka en átti áfram erfitt með andadrátt. Það leið síðan yfir hann.

Sjúkrabíll kom inn á völlinn til að sækja knattspyrnustjórann og flytja Neagoe á sjúkrahús. Hann er nú sagður vera í stöðugu ástandi en verður áfram undir eftirliti á sjúkrahúsinu.





Eftir fimmtán mínútna töf var leiknum samt haldið áfram og Universitatea Craiova vann á endanum 2-0 sigur.

Eugen Neagoe er nýkominn til félagsins því hann tók við liðinu í júní síðastliðnum.

Dinamo Búkarest hefur slæma reynslu af atburðum sem þessum. Árið 2016 fékk leikmaður liðsins, Patrick Ekeng, hjartaáfall og lést. Hann var aðeins 26 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×