Fótbolti

Elmar fylgir gamla þjálfaranum sínum og færir sig um set innan Tyrklands

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elmar hefur leikið 41 landsleik.
Elmar hefur leikið 41 landsleik. vísir/getty
Theodór Elmar Bjarnason er á förum til Akhisarspor frá Gazisehir Gaziantep í Tyrklandi. Hann mun væntanlega skrifa undir samning við Akhisarspor í dag. Þetta staðfestir hann í samtali við mbl.is.

Elmar lék með Gazisehir Gaziantep í seinni hluta síðasta tímabils. Liðið endaði í 5. sæti tyrknesku B-deildarinnar en tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni í gegnum umspil.

Þrátt fyrir að hafa komið Gazisehir Gaziantep upp var þjálfari liðsins, Mehmet Altıparmak, rekinn. Hann tók þá við Akhisarspor og vildi fá Elmar með sér.

„Ég settist niður með nýráðnum þjálfara Gazisehir Gaziantep sem tjáði mér það að hann ætlaði að fá inn fimm nýja miðjumenn í sumar og að spilatími minn yrði takmarkaður á næstu leiktíð. Akhisarspor bauð mér tveggja ára samning og sömu laun og ég átti eitt ár eftir af samningi mínum við Gazisehir Gaziantep þannig að þetta var í raun aldrei spurning,“ sagði Elmar við mbl.is.

Akhisarspor endaði í átjánda og neðsta sæti tyrknesku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og féll. Liðið varð bikarmeistari tímabilið 2017-18 en tapaði fyrir Galatasary í bikarúrslitum á síðasta tímabili.

Áður en Elmar fór til Gazisehir Gaziantep lék hann með Elazigspor. Hann hefur leikið í Tyrklandi undanfarin tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×