Innlent

Stjórnvöld sýna bágstöddum lítilsvirðingu segir formaður Fjölskylduhjálpar

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Fjölskylduhjálp Íslands fær um einn tíunda af því fjárframlagi sem hún þyrfti að fá frá hinu opinbera í ár, að sögn formanns hennar. Framlögin hafi ekki hækkað í sextán ár. Hún segir stjórnvöld sýna málaflokknum fullkomna lítilsvirðingu.

Áslaug Guðný Jónsdóttir forsvarskona Facebooksíðunnar Matarhjálp Neyðaraðstoð gagnrýndi stjórnvöld í gær fyrir að veita ekki opinberum hjálparsamtökum meira fjármagn til að aðstoða bágstadda. Um helmingi fleiri hafi leitað til síðunnar í sumar en síðustu ár vegna þess að Fjölskylduhjálpin hafi lokað í júlí og ágúst í fyrsta skipti í sextán ár. Þá sé Mæðrastyrksnefnd lokuð að venju í júlí.

Ásgerður Jóna Flosadóttir formaður Fjölskylduhjálparinnar segir samtökin fá eina milljón í ár frá ríki og það sama frá borginni sem nægi ekki fyrir sumaropnun í ár.

„Framlögin hafa aldrei hækkað frá ríki eða borg og það hefur verið þrautarganga á hverju ári að sækja um þau og margar svefnlausar nætur skal ég segja þér,“ segir Ásgerður. 

Flest framlögin komi frá fyrirtækjum og einkaaðilum.

„Fjölskylduhjálpin veltir um 40 milljónum á ári og mest af því fé koma frá fyrirtækjum og einstaklingum en við getum ekki treyst á það,“ segir hún. 

Ásgerður segir vanta nokkrar milljónir frá hinu opinbera  til að geta opnað í ágúst en í heild vanti mun meira.

„Við þyrftum líklega um 20 milljónir á ári og þá þurftum við líka sjálfsaflafé eins og við öflum með rekstri verslana Fjölskylduhjálparinnar í Iðufelli og Breiðholti,“ segir Ásgerður.

Hún segir greinilegt að stjórnmálamenn hafi ekki sett sig í spor hinna verst stöddu.

„Þetta er fullkomin lítilsvirðing við starf okkar og þeirra sem þurfa á aðstoð okkar að halda,“ segir Ásgerður að lokum.  







 














Fleiri fréttir

Sjá meira


×