Umfjöllun: Molde - KR 7-1 │KR fékk útreið í Noregi

Anton Ingi Leifsson skrifar
KR-ingar fagna fyrr í sumar.
KR-ingar fagna fyrr í sumar. vísir/bára

KR-ingar eru úr leik í Evrópudeildinni þetta árið eftir að liðið fékk skell í fyrri leiknum gegn norska toppliðinu, Molde, á útivelli í kvöld. Staðan var 4-0 í hálfleik en leiknum lauk 7-1.

Vesturbæjarliðið er með sjö stiga forskot á toppi Pepsi Max-deildarinnar en liðið gerði eina breytingu fyrir leik dagsins. Skúli Jón Friðgeirsson kom inn í liðið fyrir Atla Sigurjónsson og við það færðist Kennie Chopart framar. Skúli fór í bakvörðinn.

KR átti fyrstu færi leiksins. Þeir voru hættulegir á fyrstu mínútunum og þrjú hættuleg skot en það var eins köld vatnsgusa á sjöttu mínútu er Leke James skoraði eftir stórkostlega spilamennsku norska liðsins.

Á 29. mínútu tvöfölduðu þeir forystuna eftir hornspyrnu. Etzas Hussain skoraði þá og innan við tveimur mínútum síðar var staðan orðinn 3-0. Aftur var það hornspyrna sem skilaði því markið og KR-ingar þremur mörkum undir eftir hálftíma.

Norska liðið, sem Ole Gunnar Solskjær stýrði um tíma, spilar glæsilegan fótbolta og er ljóst að KR voru einkar óheppnir í drættinum í forkeppninni.

Glæsileg spilamennska í bland við öflug föst leikatriði
Fjórða mark fyrri skoraði Leke James er hann skoraði annað mark sitt og fjórða mark Molde. Markið kom á 41. mínútu eftir glæsilega spilamennsku.

KR-ingar því fjórum mörkum undir í hálfleik og ljóst að einvíginu var nánast lokið eftir 45 mínútur af 180. Það var því ljóst að í síðari hálfleik yrði þetta spurning um stoltið hjá Vesturbæjarliðinu.

Í síðari hálfleik róaðist leikurinn til muna. Heimamenn í Molde réðu áfram ferðinni en KR-ingar reyndu að setja heimamenn undir meiri preessu en í fyrri hálfleiknum.

Magnus Wolff Eikrem, fyrirliði Molde, tók allar hornspyrnur liðsins og þau voru mikil gæði í þeim. Þriðja markið eftir hornspyrnu og fimmta mark Molde kom á 63. mínútu er Vegard Forren skoraði. Hörmuleg dekkning hjá KR og Forren skoraði.

Veislu norska liðsins var ekki lokið. Þeir skoruðu sjötta markið þremur mínútum síðar en Tobias Thomsen klóraði í bakkann fyrir KR með laglegu skallamarki tuttugu mínútum fyrir leikslok. Ohi Omoijuanfo skoraði síðasta mark leiksins og lokatölur 7-1.

Liðin mætast aftur að viku liðinni í Vesturbænum og það er ljóst að þar munu KR-ingar einungis leika upp á stoltið því þessu einvígi er lokið.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.