Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Vaduz 0-0 │Bragðdauft jafntefli og einvígið galopið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Breiðablik náði í jafntefli í kvöld
Breiðablik náði í jafntefli í kvöld Vísir/Bára
Breiðablik og Vaduz frá Liecthenstein gerðu markalaust jafntefli á Kópavogsvelli í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA í kvöld.

Leikurinn fór nokkuð hægt af stað en bæði lið fengu þó ágæt hálffæri á fyrstu tíu mínútunum. Eftir það komust gestirnir vel inn í leikinn og þeir tóku hann yfir. Breiðablik fór vart yfir miðlínu og Vaduz reyndi ítrekað að komast aftur fyrir varnarlínu Breiðabliks.

Þeim tókst það í nokkur skipti en ekki náðu þeir þó að koma boltanum framhjá Gunnleifi Gunnleifssyni í markinu. Eftir hálftíma leik lifnuðu heimamenn loks við og fóru að sækja aðeins fram á við. Breiðablik fékk nokkrar aukaspyrnur á fínum stöðum en náðu ekki að nýta sér þær. Staðan markalaus í hálfleik.

Breiðablik kom út í seinni hálfleikinn af smá krafti en hann var ekki langlífur. Það dofnaði fljótt aftur yfir leiknum og það var lítið sem ekkert að frétta fram á við hjá hvorugu liðinu. Gestirnir áttu besta færi leiksins þegar Cedric Gasser átti skalla í þverslána og niður á 51. mínútu en boltinn fór ekki yfir marklínuna á niðurleiðinni svo Blikar sluppu með skrekkinn.

Undir lokin fóru bæði lið aðeins að reyna að sækja, en það var þó frekar máttlaust og markalaust jafntefli líklega sanngjörn niðurstaða í þessum leik.

Af hverju varð jafntefli?

Bæði lið spiluðu mjög góðan varnarleik á meðan sóknarleikurinn var ekki upp á marga fiska. Gestirnir áttu aðeins fleiri hættuleg færi en Gunnleifur hefur þó varla svitnað mikið yfir færum þeirra í markinu. Liðin voru þétt til baka og erfitt að komast í gegnum þau.

Hverjir stóðu upp úr?

Varnarlína Breiðabliks stóð sína vakt af mikilli prýði í kvöld. Damir Muminovic, Elfar Freyr Helgason og Viktor Örn Margeirsson voru allir mjög öruggir í öllum sínum aðgerðum í kvöld og þó það hafi komið einstaka færi hjá gestunum þá gátu stuðningsmenn Blika heilt yfir setið nokkuð rólegir í sætum sínum.

Hvað gekk illa?

Breiðabliki gekk illa að sækja. Í fyrri hálfleik komu allar ógnir þeirra upp úr föstum leikatriðum.  Það var aðeins meira að frétta strax í upphafi seinni hálfleiks og svo undir lokin en oftast þegar þeir komust í vænlega stöðu þá var síðasta sendingin ekki nógu góð. Það vantaði betri ákvarðanir og framkvæmd á síðasta þriðjungi til þess að refsa gestunum.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast öðru sinni í Liechtenstein að viku liðinni. Þetta einvígi er galopið eftir þessi úrslit og allt getur gerst. Það góða fyrir Breiðablik er að þeir náðu að halda hreinu í kvöld og því á Vaduz ekki útivallarmark. Verði því jafntefli fara Blikar áfram, nema það verði aftur markalaust jafntefli þá þarf að grípa til annarra úrræða til að fá fram úrslit.

Ágúst vildi þétta raðirnar fyrir leikinn við Vaduz og það tókst heldur beturvísir/bára
Gústi Gylfa: Búnir að fá mikið af mörkum á okkur og vildum þétta raðirnar

„Taktískur leikur. Einhver færi, kannski eitt, tvö á hvort lið, en mjög taktískur leikur og mjög gott lið frá Vaduz,“ sagði Ágúst inntur eftir fyrstu viðbrögðum í leikslok.

„Þeir eru mjög góðir í að halda boltanum og við þurftum að hafa fyrir hlutunum og hlaupa mikið. Við vorum þéttir og gáfum ekki mikið af færum á okkur. Ég hefði viljað vera aðeins beinskeyttari og refsa þeim aðeins meira fyrir það að halda boltanum svona vel.“

Blikar voru, líkt og Ágúst sagði, mjög þéttir til baka og vörðust vel en það var lítið að frétta frá þeim sóknarlega og langir kaflar þar sem þeir ógnuðu marki gestanna ekki neitt.

„Það var í báðar áttir fannst mér. Við erum búnir að fá mikið af mörkum á okkur núna í deildinni og ákváðum það að þétta raðirnar og gerðum það vel. Héldum markinu hreinu og það var flott.“

„Nú förum við á þeirra heimavöll og þá gildir útivallarmark, getur verið, og við þurfum að setja mark á þá, það er klárt, og ætlum að gera það.“

Fyrir Evrópuleikina í vikunni var aðeins rætt að Breiðablik væri líklega það lið sem ætti greiðustu leiðina í aðra umferð, var lið Vaduz sterkara en Ágúst bjóst við?

„Þetta er á svipuðu róli. Mér finnst þetta gott lið, þeir eru góðir í fótbolta og geta haldið boltanum vel. Þeir leikir sem ég hef séð þá spila þá eru þeir yfirleitt með yfirhöndina í að halda bolta og gera það bara mjög vel.“

„En tækifærin eru að refsa þeim þegar þeir ætla að halda boltanum inn á okkar vallarhelmingi, vinna boltann þar og sækja hratt og skora mörk á þá, það er leiðin á þá,“ sagði Ágúst Þór Gylfason.

Gunnleifur Gunnleifssonvísir/vilhelm
Gulli: Þótti vænt um að spila á móti þeim

„Ánægður með okkur, við lögðum okkur fram og varnarleikurinn frábær, margir góðir,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson, fyrirliði Breiðabliks.

„Ánægður með að halda hreinu líka en ef ég ætti að setja eitthvað á þá hefðum við mátt vera aðeins meira kúl á að sækja á þá hratt. Vera beinskeyttari og nýta föstu leikatriðin okkar betur.“

Það var þó gríðarlega mikilvægt fyrir Breiðablik að halda markinu hreinu og fá ekki á sig útivallarmark.

„Það var fyrst og fremst númer eitt, tvö og þrjú að halda hreinu hjá okkur og sem betur fer gekk það vel. Þeir sköpuðu sér ekki mikið.“

„Við förum út með núll, ef við skorum eitt þá þurfa þeir að gera tvö þannig að við þurfum að vera sniðugir í varnarleiknum úti líka.“

Gunnleifur var að spila á móti sínu gamla félagi, en þó var ekki hægt að segja að hann væri að mæta sínum gömlu félögum því það var enginn í þessu liði frá hans tíma. Hann spilaði með Vaduz árið 2009.

„Nei, ég held það hafi verið einn sjúkraþjálfari. En svo þekki ég aðeins tvo, þrjá í gegnum boltann úti. En þetta er æðislegt félag, lítið og krúttlegt og mér þótti vænt um að spila á móti þeim,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira