Fótbolti

Ísland upp um fimm sæti og hefur ekki verið ofar á styrkleikalistanum í þrjú ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska liðið er ósigrað í fimm leikjum í röð.
Íslenska liðið er ósigrað í fimm leikjum í röð. vísir/getty

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er í 17. sæti á nýjum styrkleikalista FIFA. Ísland fer upp um fimm sæti frá því listinn var síðast gefinn út.

Frá því listinn var gefinn síðast út, 29. mars, hefur Ísland leikið fjóra leiki; unnið tvo og gert tvö jafntefli.

Ísland hefur ekki verið jafn ofarlega á styrkleikalistanum síðan 2016.

Heimsmeistarar Bandaríkjanna eru áfram á toppi listans. Þeir eru með 2180 stig, 121 stigi á undan Þýskalandi. Aldrei hefur verið jafn mikill munur á tveimur efstu liðum styrkleikalistans.

Holland, silfurliðið á HM, fer upp um fimm sæti og í það þriðja. Frakkland er í 4. sæti, England í því fimmta og Svíþjóð, bronsliðið á HM og mótherji Íslands í undankeppni EM 2021, fer upp um þrjú sæti og í það sjötta.

Japan, sem féll út í 16-liða úrslitunum á HM, fer niður um fjögur sæti. Norður-Kórea tekur sæti Japans á meðal tíu efstu liða listans.

Ungverjaland og Slóvakía, sem Ísland er með í riðli í undankeppni EM, eru í 45. og 47. sæti styrkleikalistans. Lettland er í 93. sæti.

Styrkleikalistann í heild sinni má sjá með því að smella hér.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.