Innlent

Davíð segir Guðlaug Þór slá skjaldborg um filippeyska fíkniefnasala

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins. fbl/Ernir

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, sakar Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra um að slá skjaldborg utan um filippeyska fíkniefnasala í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag. Tilefni skrifa Davíðs er nýsamþykkt tillaga Íslands í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála á Filippseyjum.

Tillagan, sem snerist um að fela mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna að rannsaka fíkniefnastríð forseta Filippseyja og hvetja hann til að láta af aftökum án dóms og laga, var samþykkt naumlega í Mannréttindaráðinu í liðinni viku.

Stjórnvöld á Filippseyjum brugðust ókvæða við samþykktinni og hefur þarlend þinkona hvatt til þess að stjórnmálasambandinu við Íslendinga verði slitið. Utanríkisráðherra Filippseyja gaf auk þess í skyn að Íslendingar hafi með tillögunni tekið afstöðu með eiturlyfjahringjum.

Sjá einnig: Ýjar að því að Filippseyingar ættu að draga sig úr Mannréttindaráðinu vegna Íslands

Það eru þó ekki aðeins ráðamenn Filippseyja sem hafa út á framgöngu Íslands að setja. Það gerir jafnframt ritari Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins í dag. Hann skýlir sér venju samkvæmt á bakvið nafnleynd en ætla má að þar mundi ritstjórinn Davíð Oddsson pennann.

Í Reykjavíkurbréfinu segir þessi fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins að íslenski utanríkisráðherrann, sjálfstæðismaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson, hafi með framgöngu sinni „slegið skjaldborg um vopnaða dópsala og grúppur af svipuðu tagi“ eins og það er orðað í Reykjavíkurbréfinu, sem speglar þannig málflutning fileyppeska utanríkisráðherrans.

Davíð bætir um betur og segir að „íslenska utanríkisráðuneytið hafi þannig afvopnað löggæslumenn sem eru að abbast upp á dópsala með kalasnikoffa á Filippseyjum.“

Þessi gagnrýni á framgöngu íslensku utanríkisþjónustunnar kemur í kjölfar heiftúðugra deilna Morgunblaðsins og núverandi forystu Sjálfstæðisflokksins um þriðja orkupakkann.

Guðlaugur Þór hefur til þessa gefið lítið fyrir samhljóða gagnrýni filippeyskra stjórnvalda. Það sé hlutverk Mannréttindaráðsins að þrýsta á ríki sem virði ekki mannréttindi þegna sinna.


Tengdar fréttir

Mannréttindavaktin fagnar hugrekki Íslands

Sérfræðingur í málefnum Filippseyja hjá Mannréttindavaktinni segir ályktun Íslands aðeins fyrsta skrefið í að draga filippseysk stjórnvöld til ábyrgðar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.