Innlent

Ferðamönnum fækkað um 20% milli ára

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Brottförum farþega frá Keflavíkurflugvelli fækkaði á þriggja mánaða tímabilinu mars til maí um 12% og erlendum ferðamönnum fækkaði um tæplega 15% samkvæmt tölum Isavia.
Brottförum farþega frá Keflavíkurflugvelli fækkaði á þriggja mánaða tímabilinu mars til maí um 12% og erlendum ferðamönnum fækkaði um tæplega 15% samkvæmt tölum Isavia. Vísir/Vilhelm

Ferðamönnum til Íslands hefur fækkað um 20% sé litið til heildarfjölda ferðamanna sem heimsóttu landið á öðrum ársfjórðungi þessa árs samanborið við sama tímabil í fyrra. Í maímánuði voru gistinætur tæplega 700 þúsund talsins en það samsvarar um 10% samdrætti milli ára.

Þetta kemur fram nýjum í skammtímahagvísum Hagstofunnar fyrir ferðaþjónustu sem birtust í dag. Fjöldi ferðamanna í maí var 173 þúsund og dróst fjöldinn saman um 17% frá sama mánuði í fyrra þegar þeir voru 209 þúsund. Ferðamönnum til landsins hefur fækkað um 20% sé heildarfjöldi ferðamanna sem heimsótti Ísland á öðrum ársfjórðungi borinn saman við sama tímabil í fyrra, úr 488 þúsund 2018 niður í 390 þúsund árið 2019.

Gistinætur í maí voru 690 þúsund sé litið til allra tegunda gistinátta en í sama mánuði í fyrra voru þær 767 þúsund. Það er um 10% samdráttur á milli ára. Mestur var samdrátturinn í gistinóttum sem miðlað er í gegnum Airbnb og sambærilegar vefsíður eða um 29%. Gistinætur á hótelum drógust einnig saman en þó einungis um 3%. Á sama tíma lækkaði nýtingarhlutfall hótelherbergja á landinu úr 58% niður í 56% en framboð hótelherbergja jókst um 13% að því er skammtímahagvísarnir gefa til kynna.

Þá fækkaði brottförum farþega frá Keflavíkurflugvelli á þriggja mánaða tímabilinu mars til maí um 12% og erlendum ferðamönnum fækkaði um tæplega 15%. Samkvæmt tölum Isavia fækkaði skiptifarþegum um 43% á sama tímabili. Á öðrum ársfjórðungi hefur skiptifarþegum fækkað um 48% á milli ára, úr tæplega 560 þúsund skiptifarþegum árið 2018 niður í 290 þúsund árið 2019.
Nánar má lesa um skammtímahagvísa á vef Hagstofunnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.