Innlent

Mannréttindadómstóll Evrópu dæmir íslenska ríkið brotlegt í málum Júlíusar og Styrmis

Andri Eysteinsson skrifar
Styrmir Þór Bragason í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Styrmir Þór Bragason í Héraðsdómi Reykjavíkur. fbl/Stefán

Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði í morgun að íslenska ríkið hafi gerst brotlegt gagnvart þeim Styrmi Þór Bragasyni, fyrrverandi forstjóra MP Banka og fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Húsasmiðjunni, Júlíusi Þór Sigurþórssyni. RÚV greindi fyrst frá.

Niðurstaða dómstólsins í málunum var á þá leið að mennirnir hafi verið sakfelldir án réttlátrar málsmeðferðar í Hæstarétti.

Styrmir Þór var árið 2013 dæmdur til eins árs fangelsisvistar í Exeter-málinu svokallaða en Hæstiréttur sneri þá við nokkra mánaða gömlum dómi Héraðsdóms í málinu. Íslenska ríkinu er nú gert að greiða Styrmi 7500 evrur í skaðabætur sökum brotsins.

Styrmir hafði krafist 40.000 evra í skaðabætur en dómurinn féllst ekki á það.

Júlíus var í desemberbyrjun 2016 dæmdur í Hæstarétti fyrir verðsamráð og samkeppnislagabrot. Júlíus var einn tólf sem ákærðir voru í málinu og var í fyrstu sýknaður í héraðsdómi. Hinir tólf sem ákærðir voru tengdust fyrirtækjunum Byko, Húsasmiðjunni og Úlfinum. Brotin voru sögð hafa falist í skipulagðri upplýsingagjöf um verð og tilboðskjör grófvörutegunda.

Júlíus hlaut skilorðsbundinn níu mánaða fangelsisdóm þegar að Hæstiréttur sneri við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2016. Júlíus taldi brotið á sér með því að Hæstiréttur hafi endurmetið munnlegan framburð í málinu án lagaheimildar.

Júlíus fór fram á skaðabætur vegna málsins en dómstóllinn féllst ekki á þá kröfu hans. Viðurkenning á broti ríkisins væru nægar bætur.


Tengdar fréttir

Exeter-dómi snúið: Styrmir í árs fangelsi

Hæstiréttur hefur snúið dómi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Styrmi Þór Bragasyni, fyrrverandi forstjóra MP Banka, í Exeter-málinu svokallaða. Hann var sýknaður í héraði en fær árs fangelsi í HæstaréttiAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.