Innlent

Reðurristur fjarlægðar úr hlíðum Helgafells

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hér má sjá hluta krotsins sem nú hefur verið afmáð. Typpapyndir, nöfn og misgáfuleg skilaboð eru algengt viðfangsefni skemmdarvarganna.
Hér má sjá hluta krotsins sem nú hefur verið afmáð. Typpapyndir, nöfn og misgáfuleg skilaboð eru algengt viðfangsefni skemmdarvarganna. Facebook
Óskar Sævarsson, landvörður í Reykjanesfólkvangi, segir skemmdarverk og krot í Helgafelli, sem í dag var unnið að því að afmá, séu mörg mun eldri heldur en þau sem greint var frá að dúkkað hefðu upp í fjallinu í síðasta mánuði. Með stórri limmynd sem teiknuð var á fjallið hafi mælirinn hins vegar orðið fullur. Með dyggri hjálp Umhverfisstofnunar og Veraldarvina hafi hátt í 80 ummerki um skemmdarverk verið afmáð„Þetta er ekkert nýtt. Þetta var bara orðið allt of mikið. Svo bara sprakk þetta með typpamyndinni,“ segir Óskar en hann segir að velsæminu hafi einfaldlega verið ofboðið þegar stærðarinnar typpamynd var teiknuð á fjallið. Í dag og í gær hefur vaskur hópur fólks unnið að því að afmá ummerki um skemmdarverk úr hlíðum Helgafells.„Við fórum í dag og brugðumst við þessu. Umhverfisstofnun kærði verknaðinn og þar með er það komið í ákveðið ferli, eitt af því er að sinna viðhaldi, af því þetta er nú friðlýst svæði. Þá fékk ég með dyggri aðstoð Umhverfisstofnunar, vaskan hóp af fólki,“ segir Óskar. Auk hóps frá Umhverfisstofnun eru um 20 krakkar frá Veraldarvinum, sem starfa á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Það má því segja að það hafi verið valinn maður í hverju rúmi í aðgerðum dagsins.„Við skiptum okkur í tvennt og afmáðum 60 til 80 ummerki. Sum þeirra voru ný, en önnur voru djúp og gömul.“Óskar segir að tímabært hafi verið að ráðast í aðgerðir sem þessar. Krotið um allt fjall hafi einfaldlega verið orðið allt of mikið, dreift um allt fjallið.

Þessi limur er aðeins eitt fjölmargra dæma um misskemmtilegar myndir og skilaboð sem rist hafa verið í fjallið.Facebook

Prófmál inn í framtíðina

Óskar segir svona viðhaldsaðgerðir almennt ekki vera í verkahring landvarða eða annarra sem fara með umsjá friðlýstra svæða.„Þetta var bara orðið of mikið. Þetta verður væntanlega prófmál inn í framtíðina fyrir þá sem koma að svona málum, skipulagningu, þá sem sjá um friðlýst svæði, landverði. Hvort það eigi að vera í þeirra verkahring að afmá. Það er nokkuð ljóst að ef að við stöndum fólk að verki, þá munum við kæra,“ segir landvörðurinn.Hann segir þær aðferðir sem notast er við þegar skemmdarverkin eru afmáð úr fjallshlíðunum vera einfaldar.„Þetta er mjúkt, opið, slípað móberg undan veðri og vindum. Það rigndi síðustu tvo daga, sem gerði þetta enn einfaldara,“ segir Óskar og upplýsir blaðamann í kjölfarið um að notast sé við öfluga vírbursta sem beitt er með handafli.

Óskar Sævarsson, landvörður í Reykjanesfólkvangi.Grindavíkurbær
„Klórum þetta hægt og rólega upp, þannig að ekki verði með nokkru móti hægt að greina hvað þarna stóð.“Þó að ummerki um skemmdarverkin séu mögulega ekki alveg á braut kveðst Óskar litlar áhyggjur hafa af því, þar sem íslenski veturinn, veður og vindar, komi til með að hjálpa til með slíkt þegar sumri tekur að halla.Hópurinn hóf vinnu um klukkan 10 í morgun og var á leið niður af fjallinu þegar blaðamaður heyrði í Óskari á þriðja tímanum í dag.

 

Þakkar Umhverfisstofnun fyrir veitta aðstoð

Óskar fer einn með landvörslu í Reykjanesfólkvangi, en það er gríðarstórt svæði.„Ég nýt þess núna undanfarin ár að fá mjög góða aðstoð frá Umhverfisstofnun,“ segir Óskar og segist um leið biðja að heilsa vinum sínum í Umhverfisstofnun.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.