Innlent

Elti sjúkrabíl til þess að komast hraðar yfir

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Ökumaðurinn nýtti sér sjúkrabíl í forgangsakstri til þess að komast hraðar yfir.
Ökumaðurinn nýtti sér sjúkrabíl í forgangsakstri til þess að komast hraðar yfir. Vísir/Vilhelm
Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði í gær ökumann á Suðurlandsvegi sem ekið hafði á eftir sjúkrabifreið í forgangsakstri og nýtti sér þannig tækifæri til þess að komast hraðar yfir.

Sjúkrabifreiðinni var ekið með bláum forgangsljósum og alveg sama á hvaða hraða henni var ekið þá fylgdi ökumaðurinn í bílnum á eftir eins og skugginn að því fram kemur í Facebook-færslu Lögreglunnar á Suðurlandi.

Málið er litið alvarlegum augum en fyrir utan hraðaksturinn þarf ekki að fjölyrða um þá hættu er umræddur ökumaður skapaði með athæfi sínu. Hann var stöðvaður og kærður fyrir hraðakstur auk þess sem hann fékk alvarlegt tiltal vegna hegðunar sinnar.

Ætlaði hringinn á sólarhring

Þá var annar ökumaður stöðvaður í gær á Suðurlandsvegi á 145 km/klst á milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs síðastliðna nótt.

Ökumaðurinn gaf þær skýringar við lögreglu á hraða sínum að hann ætti bókað flug frá Íslandi í dag og hafði ætlað að aka hringinn í kringum landið og taka nokkrar ljósmyndir. Þar sem ökumaðurinn var á austurleið var honum bent á að skynsamlegra væri að snúa við og aka til vesturs ef hann ætlaði sér að ná umræddu flugi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×