Innlent

E. coli bakterían ekki eingöngu bundin við kálfana á Efstadal II

Andri Eysteinsson skrifar
Ferðaþjónustubærinn Efstidalur II
Ferðaþjónustubærinn Efstidalur II Vísir/SKH

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur í samráði við Matvælastofnun sett fram auknar kröfur um úrbætur á Efstadal II vegna E. coli sýkinganna sem raktar eru til starfsemi bæjarins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti landlæknis.

Sýni frá sex einstaklingum voru rannsökuð í gær og greindist enginn með sýkinguna. Alls hefur sýkingin því verið staðfest hjá 21 einstaklingi, 19 börnum og tveimur fullorðnum.

Bakterían útbreiddari en sýnt hafði verið fram á

Niðurstöður frá þeim tveimur fullorðnu einstaklingum sem greindust með bakteríuna 17. júlí síðastliðinn sýndu að þeir báru báðir sömu tegund E. coli og greinst hefur í börnum og kálfum í Efstadal II.

Annar einstaklinganna starfar á bænum en hefur verið einkennalaus. Starfsmaðurinn hefur ekki starfað við matvælaframleiðslu eða afgreiðslu þeirra og hefur því ekki sérstaka tengingu við hina sýktu.

Í tilkynningunni segir að hinn einstaklingurinn sé erlendur ferðamaður. Ferðamaðurinn kom til landsins 5. júlí síðastliðinn, heimsótti Efstadal II svo þann 8. júlí og veiktist þremur dögum seinna. Ferðamaðurinn var ekki í samneyti við dýr á Efstadal II en neytti matvæla, þar á meðal íss.

Þá segir í tilkynningunni að niðurstaðan sýni að E. coli bakterían er útbreiddari á staðnum en áður hefur verið sýnt fram á og ekki eingöngu bundin við kálfana.
Ljóst sé að ekki hefur tekist að uppræta smit og smitleiðir og því hafa verið gerðar auknar kröfur.

Starfsfólk sýni fram á að það sé ekki með bakteríuna

Kröfur hafa verið gerðar um að sala íss verði stöðvuð þar til alþrif og sótthreinsun hafi verið gerð. Framleiðsla íss var stöðvuð 5. júlí síðastliðinn og verður ekki hafin að nýju fyrr en að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Þá hafði verið lokið við alþrif og sótthreinsun á veitingastað Efstadals II og aðlægum rýmum eins og farið er fram á.

Þá skal aðgengi að dýrum vera lokað þar til að viðunandi hreinlætisaðstaða hefur verið sett upp, aðskilnaður milli veitingasvæða og dýra verði efldur og að starfsmenn sem vinni við matvæli sýni fram á að þeir séu ekki með bakteríuna STEC E. coli.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.