Fótbolti

Skammar Colin Kaepernick um leið og hann hrósar Megan Rapinoe

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Megan Rapinoe hefur verið frábær á HM.
Megan Rapinoe hefur verið frábær á HM. Getty/Maddie Meyer
Bandaríski fjölmiðlamaðurinn Jason Whitlock er hrifinn af því sem bandaríska knattspyrnukonan Megan Rapinoe er að gera bæði innan sem utan vallar.

Megan Rapinoe hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína inn á vellinum á HM kvenna í fótbolta en hún fær ekki síður athyglina fyrir það sem hún segir í viðtölum við fjölmiðla.

Megan Rapinoe var ein af þeim íþróttamönnum í Bandaríkjunum sem mótmæltu misrétti í Bandaríkjunum með því að neita að standa á meðan bandaríski þjóðsöngurinn var spilaður. Hún er óhrædd að tjá skoðun sína og er stoltur fulltrúi samkynhneigðra í Bandaríkjunum sem oftar en ekki eiga erfitt uppdráttar í landinu.

NFL-leikmaðurinn Colin Kaepernick varð heimsfrægur fyrir að mótmæla á meðan þjóðsöngurinn var spilaður og úr varð stórmál í bandarísku þjóðfélagi þar sem Bandaríkjaforseti Donald Trump blandaði sér í málið.

Megan Rapinoe hefur ekki verið hrædd við að tjá opinberlega óánægju sína með Donald Trump og segir það sem dæmdi ekki koma til greina að heimsækja hann í Hvíta húsið verði bandaríska liðið heimsmeistari í Frakklandi.

Donald Trump skaut þá á hana og bað hana um að tala minna og ná árangri inn á vellinum. Rapinoe svaraði með því að skora bæði mörkin í sigri á Frökkum í átta liða úrslitunum.

En aftur að Jason Whitlock og hrósi hans.

Whitlock gagnrýndi Colin Kaepernick harðlega á sínum tíma en hann hrósar aftur á móti Megan Rapinoe. Hann segir Kaepernick ekki hafa innistæðu fyrir sinni gagnrýni og að hann hafi aðeins verið tækifærissinna.

Whitlock hefur aftur á móti allt aðra skoðun á Megan Rapinoe sem er trú sinni sannfæringu og óhrædd að berjast fyrir sínum málstað.

Það er hægt að hlusta á athyglisverðan pistil Whitlock um ástæðurnar fyrir ólíku mati hans á aðgerðasinnanum Colin Kaepernick og aðgerðasinnanum Megan Rapinoe hér fyrir neðan. Það er nefnilega nauðsynlegt fyrir aðgerðasinna að „þekkja muninn á Angelu Davis og Angelu Lansbury“ eins og Jason Whitlock kemst svo skemmtilega að orði hér fyrir neðan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×