Innlent

Draugfullur Laugdælingur sparkaði í lögregluþjón

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það viðraði vel til ölvunar í Laugardal í nótt, rétt eins og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.
Það viðraði vel til ölvunar í Laugardal í nótt, rétt eins og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkurborg
Lögreglan gerði fjórum að verja nóttinni í fangaklefa á Hverfisgötu. Alls rataði 61 mál inn á borð lögreglunnar frá því klukkan 17 síðdegis í gær fram til klukkan fimm í morgun og voru þau af margvíslegum toga, ef marka má dagbókarfærslur lögreglunnar.

Þannig barst lögreglu tilkynning á sjöunda tímanum í gærkvöldi um mann og konu í annarlegu ástandi að reyna að komast inn í íbúð í miðborginni. Þegar lögreglumenn komu á staðinn á fólkið að hafa framið húsbrot og voru þau því bæði handtekin. Eftir skýrslutöku á lögreglustöð voru þau hins vegar látin laus.

Kona í Laugardal, sem sögð er hafa verið mjög drukkin, var þó flutt í fangaklefa þar sem hún varði nóttinni. Að sögn lögreglu á hún að hafa sparkað í lögregluþjón sem hafði af henni afskipti á öðrum tímanum í nótt og því handtekin vegna ofbeldis gegn opinberum starfsmenn. Ætla má að hún verði yfirheyrð þegar ástand hennar leyfir.

Jafnframt var nokkur fjöldi ökumanna stöðvaður vegna gruns um að aka undir áhrifum vímuefna. Þá eiga lögreglumenn að hafa sinnt nokkrum kvörtunum um tónlistarhávaða í heimahúsum og fjölbýlishúsum víðsvegar um borgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×