Innlent

Tuttugu gráður í kortunum næstu daga

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hitinn á eftir að hækka eftir því sem líður á vikuna, en hér ber að líta hitakortið fyrir seinni part morgundagsins.
Hitinn á eftir að hækka eftir því sem líður á vikuna, en hér ber að líta hitakortið fyrir seinni part morgundagsins. Veðurstofan

Það eru prýðilegar hitatölur í kortunum fyrir allt land út vikuna. Útlit er fyrir „tiltölulega rólega austlæga átt“ í dag, eins og veðurfræðingur á Veðurstofunni kemst að orði. Hann áætlar að sama skapi að það verði væntanlega skýjað að mestu á landinu og skúrir á víð og dreif.

Hitinn verður auk þess á bilinu 7 til 15 stig í dag og hlýjast verður á suðvesturhorninu. Aftur á móti verður hlýjast á Norðausturlandi á morgun eftir nokkuð viðvarandi kuldaskeið á þeim slóðum í sumar.

Það verður jafnframt áfram róleg austlæg átt á morgun, nema við suðurströndina þar sem vindur gæti farið yfir 10 m/s. Þurrt og bjart veður um landið norðaustanvert og þar verður væntanlega hlýjast á morgun, eða allt að 18 til 19 stig. Meira af skýjum í öðrum landshlutum og skúrir á stöku stað.

Veðurstofan áætlar að hitinn muni hækka eftir því sem líður á vikuna. Búist er við því að hitinn nái allt að 20 stigum frá miðvikudegi og eitthvað inn í helgina. Þessu mun þó fylgja einhver úrkoma.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:
Austlæg átt 3-8 m/s, bjart með köflum, en skúrir á stöku stað. Austan 8-13 með suðurströndinni og rigning af og til. Hiti víða 12 til 18 stig. 

Á miðvikudag:
Suðaustan 5-10, en 10-15 syðst á landinu. Rigning með köflum um landið sunnanvert, hiti 10 til 15 stig. Þurrt og bjart norðantil með hita að 20 stigum. 

Á fimmtudag:
Suðaustlæg eða breytileg átt 3-10. Bjart með köflum norðan og vestanlands, en líkur á skúrum síðdegis. Hiti 13 til 20 stig. Súld á Suðausturlandi og Austfjörðum og svalara. 

Á föstudag og laugardag:
Hæg suðlæg átt og skýjað, en úrkomulítið. Hiti 11 til 15 stig. Bjart á köflum á Norður- og Austurlandi og stöku skúrir síðdegis, hiti að 20 stigum. 

Á sunnudag:
Sunnanátt með súld og rigningu, en þurrt og hlýtt norðaustantil á landinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.