María og þær norsku í 8-liða úrslit eftir vítakeppni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
María og þær norsku fagna.
María og þær norsku fagna. vísir/getty
Noregur er kominn í 8-liða úrslit á HM kvenna eftir sigur á Ástralíu eftir vítaspyrnukeppni í Nice í kvöld. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 1-1 og hvorugu liðinu tókst að skora í framlengingu. Því réðust úrslitin á vítapunktinum.

Þar sýndu leikmenn Noregs mikið öryggi og skoruðu úr öllum fjórum spyrnum sínum. Á meðan skoraði Ástralía aðeins úr einu víti.

María Þórisdóttir lék allan leikinn í vörn Norðmanna sem eru komnir í 8-liða úrslit á HM í fyrsta sinn síðan 2007.

Isabell Herlovsen kemur Noregi yfir.vísir/getty
Á 32. mínútu kom Isabell Herlovsen Noregi yfir. Hún fékk þá góða sendingu frá Karinu Saevik og skoraði framhjá Lydiu Williams. Sú síðarnefnda átti annars stórgóðan leik í ástralska markinu í kvöld og varði nokkrum sinnum vel.

Skömmu fyrir hálfleik dæmdi Riem Hussein, dómari leiksins, vítaspyrnu á Maríu fyrir að handleika boltann innan teigs. En eftir að hafa skoðað atvikið á myndbandi var dómnum breytt enda sást að boltinn fór ekki í hönd Maríu.

Eftir rúman klukkutíma var svo mark dæmt af Sam Kerr, markahæsta leikmanni Ástralíu á HM.

Ástralir fagna jöfnunarmarki Elise Kellond-Knight.vísir/getty
Ástralska liðið jók pressuna eftir því sem leið á leikinn og á 84. mínútu jafnaði Elise Kellond-Knight metin þegar hún skoraði beint úr hornspyrnu.

Þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma átti Caroline Graham Hansen skot í stöngina á marki Ástralíu. Skömmu síðar flautaði Hussein til loka venjulegs leiktíma.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks framlengingarinnar urðu Ástralir fyrir áfalli þegar Alanna Kennedy var rekinn út af fyrir að brjóta á Lisu-Marie Utland sem var sloppin í gegn. Skömmu síðar átti Vilde Risa skot í slána á marki Ástralíu.

Ingrid Engen skorar úr síðustu spyrnu Noregs í vítakeppninni.vísir/getty
Fleiri urðu mörkin þó ekki og vítakeppni þurfti til að knýja fram úrslit. Hansen, Guro Reiten, Maren Mjelde og Ingrid Engen skoruðu úr sínum spyrnum fyrir Noreg.

Steph Catley var hins vegar eini Ástralinn sem skoraði úr sinni spyrnu. Kerr skaut yfir og Ingrid Hjelmseth varði frá Emily Gielnik.

Í 8-liða úrslitunum mætir Noregur annað hvort Englandi eða Kamerún.

Vítakeppnin (Noregur byrjar):

1-0 Caroline Graham Hansen skorar

1-0 Sam Kerr skýtur yfir 

2-0 Guro Reiten skorar 

2-0 Ingrid Hjelmseth ver frá Emily Gielnik

3-0 Maren Mjelde skorar

3-1 Steph Catley skorar

4-1 Ingrid Engen skorar

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira