Henry tryggði Frökkum sigur í framlengingu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eugénie Le Sommer og Wendie Renard fagna með Amandine Henry, hetju Frakka.
Eugénie Le Sommer og Wendie Renard fagna með Amandine Henry, hetju Frakka. vísir/getty
Frakkland er komið í 8-liða úrslit á HM kvenna eftir sigur á Brasilíu, 2-1, í framlengdum leik í Le Havre í kvöld.

Amandine Henry skoraði sigurmark franska liðsins á 106. mínútu. Þetta er í þriðja sinn í röð sem Frakkar komast í 8-liða úrslit á HM kvenna.

Þar mætir Frakkland annað hvort heimsmeisturum Bandaríkjanna eða Spáni. Liðin eigast við í Reims á morgun.

Valérie Gauvin skoraði eftir rúmlega 20 mínútna leik en markið var dæmt af vegna brots á Barböru, markverði Brasilíu. Að sjálfsögðu kom VARsjáin þar við sögu.

Valérie Gauvin fagnar eftir að hafa komið Frökkum yfir.vísir/getty
Staðan var markalaus í hálfleik en á 53. mínútu skoraði Gauvin og að þessu sinni fékk markið að standa. Kadidiatou Diani átti þá sprett upp hægri kantinn og gaf fyrir á Gauvin sem renndi sér á boltann og stýrði honum yfir línuna. Þetta var sjöunda mark hennar í síðustu níu landsleikjum.

Skömmu síðar varði Sarah Bouhaddi, markvörður Frakklands, skalla Cristiane í slána. Hún kom hins vegar engum vörnum við þegar Thaisa jafnaði metin á 64. mínútu með góðu vinstri fótar skoti úr vítateignum. Thaisa lék með Grindavík í Pepsi-deild kvenna fyrir tveimur árum.

Fleiri urðu mörkin í venjulegum leiktíma ekki og því þurfti að framlengja. Á lokamínútu fyrri hálfleiks framlengingarinnar bjargaði Griedge Mbock Bathy frábærlega á línu frá Debinhu og kom í veg fyrir að Brassar kæmust yfir.

Í upphafi seinni hálfleiks framlengingarinnar skoraði Henry svo sigurmark Frakka eftir aukaspyrnu Amel Majri, samherja síns hjá Lyon, af hægri kantinum. Lokatölur 2-1, Frakklandi í vil.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira