Innlent

Einhverfusamtökin leiðrétta rangfærslur Jakobs Frímanns

Eiður Þór Árnason skrifar
Samtökin hvetja fólk til að afla sér þekkingar um einhverfu.
Samtökin hvetja fólk til að afla sér þekkingar um einhverfu. Fréttablaðið/Sigtryggur
Hvorki er til greining sem heitir bráðaeinhverfa, né stafar einhverfa af „menguðu sæði og menguðum eggjum.“ Þetta kemur fram í viðbrögðum Einhverfusamtakanna við ummælum Jakobs Frímanns Magnússonar, sem fram komu í Bítinu á Bylgjunni í gær.

Þar ræddi Jakob Frímann hispurslaust um einhverfu og olli viðtalið talsverðri óánægju meðal foreldra barna með einhverfu. Í viðtalinu tengir Jakob einhverfu við uppsöfnun eiturefna í líkamanum:

„Það er til kenning sem heitir kokteilkenningin. Hún fjallar um allt þetta rusl sem að fer inn í okkur. Sumt flushast og fer út en annað situr eftir, málmar og alls konar óhreinindi. Þegar slíkt mengað sæði rennur saman við mengað egg, þá gerist þessi kokteil-effect, sem þýðir að börnin fæðast starandi út í blámann og ná ekki sambandi við neitt. Bráðaeinhverfa.“

Í yfirlýsingu Einhverfusamtakanna segir: „Umfjöllun Jakobs Frímanns var öll hin furðulegasta og ekki byggð á staðfestum rannsóknum.“

Samtökin benda þar á að einhverfa stafi af öðruvísi taugaþroska og að rannsóknir bendi til þess að um sé að ræða samspil erfða og umhverfis þar sem erfðaþátturinn ræður mestu. Að öðru leyti séu orsakir einhverfu ekki þekktar.

Jafnframt vara samtökin við því að: „Óvarleg umfjöllun og rangar fullyrðingar geta aukið á fordóma og valdið vanlíðan hjá fólki á einhverfurófi og aðstandendum þeirra.“

Jakob sagði í samtali við DV.is að hann telji orð sín um samhengi mengaðrar fæðu og sjúkdóma hafa verið mistúlkuð. Bað hann þá sem túlkuðu orð hans með þeim hætti að þau væru særandi innilegrar afsökunar.

Ummæli Jakobs um einhverfu í Bítinu má hlusta á hér fyrir neðan, þau hefjast á 22. mínútu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×