Innlent

Handtekinn eftir átök í heimahúsi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fólkið tókst á í íbúðarhúsi í hverfi 105 í Reykjavík.
Fólkið tókst á í íbúðarhúsi í hverfi 105 í Reykjavík. Vísir/vilhelm
Tilkynnt var um slagsmál og læti í heimahúsi í Hlíðahverfi í Reykjavík á sjöunda tímanum í gær. Tveir karlmenn og ein kona voru þar í átökum en minniháttar áverkar voru á öllum. Einn var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Málið er í rannsókn, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Alls voru 83 mál bókuð í dagbók lögreglu frá því klukkan fimm síðdegis í gær til klukkan fimm í morgun.

Skömmu fyrir klukkan sjö síðdegis í gær fékk lögregla nokkrar tilkynningar um hugsanlega ölvaðan ökumann í austurbænum. Tilkynnt var um rásandi aksturslag ökumannsins, sem ók upp á kanta, og var hann stöðvaður stuttu síðar. Ökumaður reyndist ofurölvi og var vistaður í fangageymslu eftir sýnatöku.

Tilkynnt var um umferðarslys á Meðalfellsvegi, einnig á sjöunda tímanum. Bifreið hafnaði utan vegar í skurði. Ökumaður, sem grunaður er um ölvun við akstur, var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítala með minniháttar áverka.

Á níunda tímanum var svo tilkynnt um þjófnað úr bifreið í Hlíðunum þar sem ýmsum smámunum var stolið.

Þá var tilkynntum slys utandyra í Breiðholti skömmu fyrir klukkan tvö í nótt. Ölvaður sjötugur maður með áverka á höfði var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild. Vitni sögðu hann hafa dottið á höfuðið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.