Erlent

Náðu mynd­bandi af hinum dular­fulla risa­smokk­fiski

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandinu sem bandarísku vísindamennirnir náðu.
Skjáskot úr myndbandinu sem bandarísku vísindamennirnir náðu.

Bandarískum vísindamönnum tókst á dögunum að ná myndbandi af einni dularfyllstu skepnu undirdjúpanna, risasmokkfiski.

Risasmokkfiskur er stærsta djúpsjávardýrið og er talið að risasmokkfiskar verði venjulega 6 til 13 metrar á lengd og frá 50 kílóum og allt upp í 300 kíló að þyngd, að því er fram kemur á Vísindavefnum.

Fjallað er um nýja myndbandið sem náðist af dýrinu á vef Washington Post. Myndbandið var tekið á 759 metra dýpi í Mexíkóflóa og er fyrsta myndbandið af lifandi risasmokkfiski sem næst í bandarískri lögsögu.

Myndbandið var tekið í leiðangri 23 vísindamanna sem voru að rannsaka hvaða áhrif það hefur á skepnur að lifa í sjónum á um 1000 metra dýpi í algjöru myrkri.

Talið er að risasmokkfiskurinn sem vísindamennirnir náðu að mynda sé að minnsta kosti þrír metrar á lengd.Það voru japanskir vísindamenn sem náðu fyrstu myndunum af lifandi risasmokkfiski í undirdjúpunum árið 2004.

Þá náðu þeir einnig fyrstu sýnunum úr lifandi dýri af þessari tegund en að öðru leyti er þekking vísindamanna á risasmokkfisknum nær eingöngu bundin við þau hræ af dauðum dýrum sem skolað hefur á land í gegnum tíðina.

Vegna þess hversu lítið er vitað um þessa dýrategund hafa margir þjóðsögur spunnist um risasmokkfiskinn og stærð hans og því meðal annars haldið fram að í undirdjúpunum lifi dýr sem sé allt að 20 metrar á lengd að því er segir í grein á Vísindavefnum.

Sem dæmi um þjóðsögu sem talið er að megi rekja til risasmokkfisksins er sagan af sæskrímslinu Kraken, eða Krakanum, á Norðurlöndum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.