Fótbolti

Helgi Mikael dæmir Evrópudeildarleik í Kósovó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Mikael Jónasson með spjaldið á lofti í Pepsi deildinni í fyrra.
Helgi Mikael Jónasson með spjaldið á lofti í Pepsi deildinni í fyrra. Vísir/Daníel
Íslenski FIFA-dómarinn Helgi Mikael Jónasson verður með flautuna í Evrópudeildinni í þessari viku.

Helgi Mikael er á leiðinni suður til Kósovó þar sem hann mun dæma leik í fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar. KSÍ segir frá.

Þetta verður fyrsti Evrópuleikurinn sem Helgi Mikael dæmir en hann er nýjasti FIFA-dómari Íslands.

Leikurinn sem hann dæmir er leikur FC Prishtina frá Kosovó og St Joseph´s FC frá Gíbraltar. Leikurinn fer fram 27. júní í Pristina í Kosovó. Helga til aðstoðar verða þeir Birkir Sigurðarson og Bryngeir Valdimarsson en fjórði dómari verður Þorvaldur Árnason.

Prishtina liðið sló út annað lið frá Gíbraltar í sömu umferð í fyrra eftir að hafa unnið 5-0 sigur í heimaleiknum.

Helgi Mikael er enn bara 25 ára gamall en hann dæmdi sinn fyrsta leik í Pepsi-deildinni í maí 2016 og á nú að baki 40 leiki í efstu deild.

Helgi Mikael hefur bæði dæmt í velsku úrvalsdeildinni og í sænsku b-deildinni auk þess að dæma leik á EM 17 ára landsliða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×