Fótbolti

Fimm ár í dag síðan að Luis Suarez missti jafnvægið og datt á öxlina hans Chiellini

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez kvartar undir verk í tönnunum eftir að hafa bitið Ítalann Giorgio Chiellini í öxlina.
Luis Suarez kvartar undir verk í tönnunum eftir að hafa bitið Ítalann Giorgio Chiellini í öxlina. Getty/Matthias Hangst
24. júní 2014 verður seint talinn vera einn af betri dögunum á knattspyrnuferli Úrúgvæmannsins Luis Suarez. Í dag eru fimm ár liðin frá þessum afdrifaríka degi í lífi Barcelona framherjans.Það var nefnilega á þessum degi fyrir fimm árum sem Luis Suarez varð uppvís að því að bíta Ítalann Giorgio Chiellini í öxlina í leik Úrúgvæ og Ítalíu á HM í Brasilíu.Luis Suarez lét sig falla í grasið í kjölfarið og hélt um tennurnar sínar eins og hann væri fórnarlambið. Þegar málið var tekið fyrir hjá aganefnd FIFA þá sagðist hann hafa misst jafnvægið og dottið á öxlina hans Chiellini.Myndir og myndbönd af atvikinu sögðu hins vegar allt aðra sögu og það hjálpaði heldur ekki til að þetta var langt frá því að vera fyrsta bitið hans á fótboltavellinum.Luis Suarez var dæmdur í fjögurra mánaða bann fyrir bitið. Suarez var enn í algjörri afneitun á æfingu daginn eftir þegar Oscar Tabarez, þjálfari Úrúgvæ, kallaði hann til sín. Tabarez færði honum fréttirnar af ákvörðun FIFA. Níu leikja bann og hann mátti ekki vera lengur í kringum úrúgvæska landsliðið. Hann þurfti að yfirgefa hópinn strax.Luis Suarez var þarna ennþá leikmaður Liverpool en enska félagið seldi hann síðan til Barcelona 11. júlí fyrir um 82 milljónir evra.Luis Suarez var í banni til 25. október og mátti ekki koma nálægt skipulögðum fótbolta, hvort sem leikmaður eða áhorfandi. Eftir áfrýjun Luis Suarez fékk hann að spila æfingaleiki með Barcelona en lék ekki fyrsta keppnisleikinn sinn með Barca fyrr en í lok október.Luis Suarez hefur rætt þessa erfiðu tíma í viðtölum og sagt frá því að í kjölfarið hafi hann leitað sér aðstoðar hjá sálfræðingi. Sú meðferð hefur gengið vel því Luis Suarez hefur ekki bitið neinn andstæðing síðan þá.Suarez er samt ekki sáttur við þá meðferð sem hann og fjölskylda hans fékk í kjölfarið. Úr varð mikið fjölmiðlafár og hann var fórnarlamd háðs og harðar gagnrýni á samfélagamiðlum.Þrátt fyrir ótal mörk og fjölda titla mun honum eflaust seint takast að losna við svarta blettinn sem hann fékk á sig 24. júní fyrir fimm árum síðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.