Innlent

RÚV og Jón Ársæll dregin fyrir dóm

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Jón Ársæll Þórðarson.
Jón Ársæll Þórðarson.
Kona sem var viðmælandi og umfjöllunarefni í einum þátta sjónvarpsþáttaraðar Jóns Ársæls Þórðarsonar, Paradísarheimt, hefur höfðað mál gegn sjónvarpsmanninum góðkunna og Ríkisútvarpinu. Ólafur Valur Guðjónsson, lögmaður konunnar, staðfestir í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins að málið tengist sjónvarpsþættinum.

Hins vegar ríkir leynd yfir því um hvað málið snýst og hvaða kröfu konan gerir í málinu. Forsvarsmenn Ríkisútvarpsins vildu ekki tjá sig um málið og vísuðu á lögmann konunnar. Ólafur Valur vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Í umræddum þætti Paradísarheimtar ræddi Jón Ársæll við konuna sem þá var þrítug og afplánaði dóm á Sogni. Gerði hún upp erfið uppvaxtar­ár sín og baráttu við fíkn. Um þáttinn var fjallað í netmiðlum eftir að hann var sýndur og vakti hann nokkra athygli líkt og fleiri þættir í þáttaröð Jóns Ársæls.

Það var engin lognmolla í kringum sýningu þáttanna síðastliðinn vetur enda efnistökin oft viðkvæm og vandmeðfarin. Hafa meðal annars einstaklingar sem birtust í þáttunum í misjöfnu ástandi kvartað opinberlega undan því. Þá komust þættirnir einnig í fréttir í janúar síðastliðnum þegar greint var frá því að RÚV hefði ákveðið að fresta sýningu eins þáttar, þar sem rætt var við yfirlýstan íslenskan nasista. Ástæðan var að sýningardagur þáttarins lenti fyrir tilviljun á alþjóðlegum minningardegi um helförina.

Mál konunnar gegn Jóni Ársæli og Ríkisútvarpinu verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×