Innlent

Kastaðist sjö metra af mótorhjólinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Meiðsl mannsins reyndust minni en óttast hafði verið í fyrstu.
Meiðsl mannsins reyndust minni en óttast hafði verið í fyrstu. Vísir/Vilhelm
Rúmlega fertugur karlmaður var fluttur á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi um helgina eftir mótorhjólaslys á Suðurnesjum. Hann var á ferð eftir Nesvegi í Grindavík ásamt félögum sínum þegar óhappið varð, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Maðurinn missti stjórn á hjólinu með þeim afleiðingum að það lenti utan vegar en sjálfur hentist maðurinn fram af hjólinu og flaug um sjö metra. Meiðsl mannsins reyndust minni en óttast hafði verið í fyrstu en hann og samferðamenn hans voru allir með hjálma og hlífðarbúnað.

Fleiri umferðaróhöpp hafa verið skráð hjá lögreglunni á Suðurnesjum á undanförnum dögum en engin alvarleg slys á fólki. Lögreglu barst m.a. tilkynning þess efnis að tveir drengir væri hjálmlausir á vespu á Reykjanesbraut og ækju í átt að Keflavík. Þeir voru stöðvaðir og fluttir á lögreglustöð. Forráðamönnum þeirra var gert viðvart um ferðalagið en þeir sögðust hafa fengið vespuna að láni á höfuðborgarsvæðinu.

Þá var ökumaður, sem stöðvaður var fyrir hraðakstur, jafnframt grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Annar, sem grunaður var um ölvunarakstur, ók sviptur ökuréttindum. Þriðji ökumaðurinn framvísaði ökuskírteini sem reyndist falsað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×