Fótbolti

Hetja Hollendinga meiddist í fagnaðarlátunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lieke Martens fagnar marki sínu með liðsfélögum sínum.
Lieke Martens fagnar marki sínu með liðsfélögum sínum. Getty/Molly Darlington
Lieke Martens tryggði hollenska landsliðinu sæti í átta liða úrslitum á HM kvenna í fótbolta en gæti nú misst af leiknum.

Martens skoraði bæði mörk Hollands í 2-1 sigri á Japan þar af sigurmarkið úr vítaspyrnu undir lokin. Lieke Martens fagnaði sigurmarki sínu vel en kannski of mikið því hún meiddist í fagnaðarlátunum.

Jill Roord, liðsfélagi Lieke Martens, hoppaði óvart ofan á fót Martens í fagnaðarlátunum og það mátti sjá strax að hún meiddi hana. Nú er komið í ljós að það eru talsverðir eftirmálar af þessu atviki.

Lieke Martens var ekki með á æfingu hollenska landsliðsins í dag og hefur því enn ekki æft með liðinu eftir leikinn. Reuters segir frá.

Martens er sjálf viss um að hún geti spilað með á móti Ítalíu á morgun en það lítur ekki vel út eftir að hún missti af föstudagsæfingunni.

Lieke Martens hefur oft verið meira áberandi en á þessu heimsmeistaramóti. Hún minnti hins vegar á sig með þessum tveimur mörkum á móti Japan.

Martens var kosin besti leikmaður Evrópukeppninnar 2017 þegar hollenska landsliðið fagnaði sigri. Hún var kosin besta knattspyrnukona heims seinna það ár.

Lieke Martens er 26 ára leikmaður Barcelona og hjálpaði liðinu að komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vetur. Martens hefur skorað 44 mörk í 107 landsleikjum.

Getty/Eric Verhoeven



Fleiri fréttir

Sjá meira


×