Innlent

Segir mörkin óljós milli ábyrgðar bílstjóra og rútufyrirtækja

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Formaður Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis segir mörkin á milli ábyrgðar bílstjóra og rútufyrirtækja óljós þegar slys eigi sér stað. Viðhald bifreiða sé oft ábótavant og bílstjórar ekki alltaf í stakk búnir til að fara yfir öll öryggisatriði.

Rútubílstjórinn sem ók rútu sem ekið var aftan á fólksbíl og valt út af Suðurlandsvegi vestur af Kirkjubæjarklaustri í desember árið 2017 var á fimmtudaginn dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Í dómnum kemur fram að við bíltæknirannsókn kom í ljós að hemlagetu bifreiðarinnar var verulega ábótavant. Þá er það mat vitnis að viðhald bifreiðarinnar hafi verið vanrækt og hefði hún ekki átt að vera í umferð.

Formaður Bifreiðarstjórafélags Sleipnis segir mörkin óljós milli ábyrgðar bílstjóra annars vegar og rútufyrirtækja hins vegar þegar slys eiga sér stað.

„Manni finnst að útgerðarmenn eigi að bera einhverja ábyrgð á því líka að bíllinn sé í lagi. Því þeir eru að afhenda bílinn til langferðar og það er útgerðarmannsins að sjá til þess að bíllinn séí fullkomnu lagi fyrir ferðina. Það er bílstjórans að renna yfir þau atriði sem hann getur farið yfir,“ sagði Óskar Jens Stefánsson, formaður Bifreiðastjórafélagsins Sleipnir.

Hann segir ökumenn þó ekki alltaf í stakk búna til að fara yfir öll öryggisatriði.

„Þeir eru ekkert í öllum tilfellum í stakk búnir til að fara yfir öll öryggisatriði bifreiðarinnar. Það er vonlaust að gera það á útgerðarstað bifreiðarinnar þar sem hún leggur í ferð. Menn vilja auðvitað draga útgerðarmann og eigendur bifreiðarinnar til ábyrgðar í einhverjum tilfellum. Þeir eru umsjónarmenn bifreiðarinnar. Þeir eiga þessa bíla og eiga að sjá til þess að þeir séu í lagi,“ sagði Óskar Jens.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×