Fótbolti

Heims- og Evrópumeistararnir mæta til leiks í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alex Morgan er ein skærasta stjarna kvennafótboltans.
Alex Morgan er ein skærasta stjarna kvennafótboltans. vísir/getty
Heimsmeistarar Bandaríkjanna og Evrópumeistarar Hollands leika sína fyrstu leiki á HM í Frakklandi í dag.

Í fyrsta leik dagsins klukkan 13:00 mætast Nýja-Sjáland og Holland í Le Havre í E-riðli. Kanada vann Kamerún, 1-0, í sama riðli í gær.

Hollendingar unnu EM á heimavelli fyrir tveimur árum og þykja til alls líklegar í Frakklandi.

Holland og Nýja-Sjáland mættust í riðlakeppninni á HM 2015 í Kanada. Hollendingar unnu 1-0 sigur en það er eini sigur hollenska liðsins á HM. Ný-Sjálendingar hafa enn ekki unnið leik á HM; tapað níu leikjum og gert þrjú jafntefli.

Lieke Martens er í lykilhlutverki í hollenska liðinu sem þykir líklegt til afreka á HM.vísir/getty
Í öðrum dagsins klukkan 16:00 mætast Síle og Svíþjóð í Rennes í F-riðli.

Síle er á sínu fyrsta heimsmeistaramóti og ekki er búist við miklu af liðinu sem gekk illa í aðdraganda HM.

Þrátt fyrir að hafa ekki unnið leik í riðlakeppninni komst Svíþjóð í 16-liða úrslit á HM 2015. Þar töpuðu Svíar fyrir Þjóðverjum, 4-1. Besti árangur sænska liðsins er 2. sætið á HM 2003.

Nilla Fischer, fyrirliði Svía, er á sínu fjórða heimsmeistaramóti.vísir/getty
Klukkan 19:00 í Reims mætast Bandaríkin og Tæland í F-riðli.

Bandaríkin eiga titil að verja en bandaríska liðið varð heimsmeistari 2015 eftir sigur á Japan í úrslitaleik, 5-2. Tæland komst ekki upp úr riðlakeppninni á HM 2015.

Hægt verður að fylgjast með leikjum dagsins í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×