Fótbolti

Heims- og Evrópumeistararnir mæta til leiks í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alex Morgan er ein skærasta stjarna kvennafótboltans.
Alex Morgan er ein skærasta stjarna kvennafótboltans. vísir/getty

Heimsmeistarar Bandaríkjanna og Evrópumeistarar Hollands leika sína fyrstu leiki á HM í Frakklandi í dag.

Í fyrsta leik dagsins klukkan 13:00 mætast Nýja-Sjáland og Holland í Le Havre í E-riðli. Kanada vann Kamerún, 1-0, í sama riðli í gær.

Hollendingar unnu EM á heimavelli fyrir tveimur árum og þykja til alls líklegar í Frakklandi.

Holland og Nýja-Sjáland mættust í riðlakeppninni á HM 2015 í Kanada. Hollendingar unnu 1-0 sigur en það er eini sigur hollenska liðsins á HM. Ný-Sjálendingar hafa enn ekki unnið leik á HM; tapað níu leikjum og gert þrjú jafntefli.

Lieke Martens er í lykilhlutverki í hollenska liðinu sem þykir líklegt til afreka á HM. vísir/getty

Í öðrum dagsins klukkan 16:00 mætast Síle og Svíþjóð í Rennes í F-riðli.

Síle er á sínu fyrsta heimsmeistaramóti og ekki er búist við miklu af liðinu sem gekk illa í aðdraganda HM.

Þrátt fyrir að hafa ekki unnið leik í riðlakeppninni komst Svíþjóð í 16-liða úrslit á HM 2015. Þar töpuðu Svíar fyrir Þjóðverjum, 4-1. Besti árangur sænska liðsins er 2. sætið á HM 2003.

Nilla Fischer, fyrirliði Svía, er á sínu fjórða heimsmeistaramóti. vísir/getty

Klukkan 19:00 í Reims mætast Bandaríkin og Tæland í F-riðli.

Bandaríkin eiga titil að verja en bandaríska liðið varð heimsmeistari 2015 eftir sigur á Japan í úrslitaleik, 5-2. Tæland komst ekki upp úr riðlakeppninni á HM 2015.

Hægt verður að fylgjast með leikjum dagsins í beinni textalýsingu á Vísi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.