Innlent

Utanríkisráðherra Tyrkja óánægður í símtali við Guðlaug Þór

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mevlüt Çavuşoğlu, utanríkisráðherra Tyrklands.
Mevlüt Çavuşoğlu, utanríkisráðherra Tyrklands. Vísir/Getty

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ræddi í morgun í síma við Mevlüt Çavuşoğlu, utanríkisráðherra Tyrklands, um komu tyrkneska karlalandsliðsins í knattspyrnu hingað til lands á sunnudaginn. Í samtalinu, sem tyrkneski ráðherrann óskaði eftir, lét hann í ljós vonbrigði með framkvæmd öryggiseftirlits og vegabréfaskoðunar á Keflavíkurflugvelli og óskaði skýringa á henni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Guðlaugur Þór útskýrði málið út frá sjónarhóli íslenskra stjórnvalda og áréttaði að framkvæmdin hefði að öllu leyti verið í samræmi við hefðbundið verklag og óskir um sérstaka hraðmeðferð, sem alla jafna stæði íþróttaliðum ekki til boða, hefðu borist of seint.

Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra og Mevlüt Çavuşoğlu utanríkisráðherra Tyrklands á fundi NATO-ríkja í Brussel árið 2017. Vísir/Getty

Þá lýsir Guðlaugur Þór yfir undrun vegna viðbragða tyrkneskra stjórnvalda, sem séu mun harðari en tilefni gefi til, að því er haft er eftir ráðherra í tilkynningu ráðuneytisins.

„Mér þykir leitt að tyrkneska landsliðið hafi haft neikvæða upplifun af komunni til Íslands því að við leggjum mikið upp úr að taka vel á móti erlendum gestum okkar. Hins vegar verður eitt yfir alla að ganga og venjubundnu verklagi var fylgt í hvívetna. Þetta skýrði ég út fyrir Çavuşoğlu og um leið lýsti ég yfir undrun vegna viðbragða tyrkneskra stjórnvalda, sem væru mun harðari en tilefni gæfi til. Á endanum snýst koma tyrkneska liðsins hingað til lands um knattspyrnu og ég vonast til að allir geti nú einblínt á leikinn í kvöld, sem efalítið verður spennandi.“

Koma tyrkneska landsliðsins hingað til lands hefur vakið mikla athygli, bæði vegna þess að liðsmenn hafa kvartað sáran yfir vinnubrögðum íslensks landamæraeftirlits og einnig vegna belgísks manns sem otaði uppþvottabursta að landsliðinu á flugvellinum. Allir burstar verða gerðir upptækir á leik liðanna á Laugardalsvelli í kvöld en öryggisfulltrúi KSÍ segir Tyrkina túlka burstann sem kynþáttaníð.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.