Fótbolti

Fer með sex stig til Ítalíu og tekur við brúð­kaups­undir­búningnum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gylfi Þór og Alexandra Helga
Gylfi Þór og Alexandra Helga vísir/getty

Gylfi Þór Sigurðsson átti tvo frábæra leiki fyrir íslenska karlalandsliðið í fótbolta á síðustu dögum. Á meðan hann var að skila landsliðinu sex mikilvægum stigum sá unnusta hans, Alexandra Helga Ívarsdóttir, um undirbúning fyrir brúðkaup þeirra á Ítalíu.

Gylfi og Alexandra munu ganga í það heilaga fyrir framan ættingja og vini í Como á Ítalíu næstu helgi. Gylfi sagði hugann óneitanlega hafa verið við brúðkaupið síðustu daga þrátt fyrir að vera í mikilvægu verkefni með íslenska landsliðinu.

„Hugurinn er búinn að vera svolítið þar síðustu mánuði,“ sagði Gylfi Þór eftir 2-1 sigur Íslands á Tyrklandi á Laugardalsvelli í kvöld.

„Það er mikið að hugsa um og mikil spenna, ég get ekki beðið.“

„Þetta var fullkomið, tveir mjög góðir leikir og gott að sigla þessu heim og taka sex stig til Ítalíu.“

Konur landsliðsmannanna láta sig oftast ekki vanta á Laugardalsvöll þegar íslenska landsliðið á heimaleiki en Alexandra missti af þessum tveimur leikjum þar sem hún er kominn út til Ítalíu.

„Ég verð að gefa henni það að hún er búin að vera geggjuð í þessum undirbúning. Það er búið að vera mikið að gera hjá mér með landsliðinu og hún á mikið hrós skilið.“

„Núna get ég farið út og tekið við af henni og leyft henni að slappa aðeins af,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.