Fótbolti

Maradona hættur þjálfun að læknisráði

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Diego Maradona
Diego Maradona vísir/getty
Diego Maradona hefur látið af störfum sem knattspyrnustjóri mexíkóska liðsins Dorados de Sinaloa af heilsufarslegum ástæðum.

Maradona, sem er 58 ára gamall, þarf vart að kynna, enda goðsögn í fótboltaheiminum. Hann hefur stýrt Dorados, sem spilar í annari deild í Mexíkó, síðan í september á síðasta ári. Undir stjórn hans fór Dorados tvisvar í umspil um sæti í efstu deild.

„Maradona ætlar að einbeita sér að heilsunni að læknisráði og gangast undir tvær aðgerðir, á öxl og hné. Hann þakkar Dorados fjölskyldunni fyrir allt og heldur áfram að dreyma um framtíðina,“ sagði lögfræðingur Maradona á Twitter.





Argentínumaðurinn og heilsa hans hefur verið nokkuð áberandi í fjölmiðlum síðustu árin, sérstaklega í kringum HM í Rússlandi síðasta sumar.

Hann þurfti læknisaðstoð eftir leik Argentínu og Nígeríu á HM eftir að hafa látið illum látum í stúkunni og gefið stuðningsmönnum Nígeríu fingurinn. Þá reykti hann vindil í stúkunni á leik Íslands og Argentínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×