Fótbolti

Forseti UEFA gagnrýnir ensk félög: „Ekkert vandamál ef tvö lið frá Aserbaídsjan hefðu þurft að spila í London“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ceferin afhendir Chelsea-mönnunum César Azpilicueta og Gary Cahill Evrópudeildarbikarinn.
Ceferin afhendir Chelsea-mönnunum César Azpilicueta og Gary Cahill Evrópudeildarbikarinn. vísir/getty
Aleksander Ceferin, forseti UEFA, segir að gagnrýni Arsenal og Chelsea vegna úrslitaleik Evrópudeildarinnar sé ekki til þess fallin að auka vinsældir Englendinga innan Knattspyrnusambands Evrópu. 

Úrslitaleikur Evrópudeildarinnar fór fram á Ólympíuleikvanginum í Bakú í Aserbaídsjan. Chelsea vann leikinn, 4-1.Illa gekk að selja miða á leikinn og Arsenal og Chelsea skiluðu rúmlega helmingi þeirra miða sem félögunum var úthlutað.

Þá fór Henrikh Mkhitaryan, leikmaður Arsenal, ekki með til Aserbaídjans vegna ótta um öryggi sitt. Mkhitaryan er frá Armeníu sem hefur átt í áralangri milliríkjadeilu við Aserbaídsjan.

Ceferin gagnrýndi Arsenal og Chelsea í ræðu sem hann hélt í Oxford háskólanum í gær.

„Alltaf þegar við erum með ensk félög er alltaf kvartað. Þið aukið ekkert á vinsældir ykkar með því,“ sagði Ceferin sem segir eðlilegt að úrslitaleikurinn hafi farið fram í Bakú.

„Ef einhver spyr mig af hverju leikurinn var í Bakú svara ég: vegna þess að þar býr fólk, homo sapiens. Ef tvö asersk félög þyrftu að spila í London myndi enginn kvarta. Þau myndu koma og ekkert vesen. Við ákváðum fyrir einu og hálfu ári að úrslitaleikurinn færi fram í Bakú á nýjum velli sem tekur 70.000 manns í sæti,“ sagði Slóveninn sem var endurkjörinn forseti UEFA fyrr á þessu ári.

Bakú er ein þeirra borga þar sem EM 2020 fer fram. Ceferin segir að það breytist ekkert þrátt fyrir vandræðin í kringum úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

„Við þurfum að þróa fótboltann alls staðar, ekki bara á Englandi og í Þýskalandi,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×