Innlent

Líf og dauði í anddyri bókasafnsins á Akureyri

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dauðinn var ofarlega á baugi á Amtsbókasafninu á Akureyri þegar nýtt alþjóðlegt listaverk var afhjúpað. Gestir bókasafnsins leika lykilhlutverk í sköpun listaverksins.

Hugmyndin er að gestir og gangandi skapi listaverkið með því að skrifa á vegginn hverju þeir vilji áorka áður en tíminn er úti. Verkið er það fyrsta sem gestir bókasafnsins sjá er þeir ganga inn.

„Þetta á að fá mann til að hugsa um það sem virkilega skiptir máli. Þá fer maður svolítið að horfast í augu við það sem mun að sjállfsögðu gerast einhvern tímann, að við munum öll deyja. Við þurfum að horfast í augu við það og þannig getum við lifað til fullnustu,“ segir Berglind Mari Valdemarsdóttir, verkefnastjóri á Amtsbókasafninu á Akureyri.

Berglind Mari Valdemarsdóttir, verkefnastjóri á Amtsbókasafninu á Akureyri.Vísir/Tryggvi Páll
Veggurinn er hluti af alþjóðlega listaverkinu Before I Die sem sett hefur verið upp í tæplega 100 löndum. Er það hugarfóstur bandarísku listakonunnar Candy Chang. Það var auðsótt að fá leyfi til þess að setja verkið upp á Akureyri.

„Það vill svo skemmtilega til að hún hefur komið hingað til Akureyrar og henni leist bara afar vel á þetta allt saman og vill endilega fá bara sem mest af myndum og fá að vita allt mögulegt um þennan vegg hér í bæ og vonar að sem flestir taki þátt,“ segir Berglind Mari.

Ungir sem aldnir geta skrifað á vegginn.Vísir/Tryggvi Páll
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, reið á vaðið og aðrir fylgdu á eftir. 



Ert þú búinn að ákveða hvað þú ætlar að setja á vegginn?



„Ég er búinn að hugsa þetta og ég veit það ekki. Það er alveg að nógu af taka, umhverfismálin, fara til Fídjí. Ég veit það ekki, mér dettur örugglega eitthvað sniðugt í hug.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×