Innlent

Stoppuðu á Selfossi eftir sambandsleysi við annan hvalinn

Magnús Hlynur Hreiðarsson og Tryggvi Páll Tryggvason skrifa
Stoppað var til að kanna ástandið á hvölunum.
Stoppað var til að kanna ástandið á hvölunum. Vísir/Magnús Hlynur
Það styttist í annan endann á löngu og ströngu ferðalagi Litlu-Hvítrar og Litlu Grárrar frá Kína til Vestmanneyja. Hersingin er nýmætt í Landeyjarhöfn þar sem Herjólfur bíður eftir hvölunum. Ákveðið var að stoppa á Selfossi eftir að fylgdarlið hvalanna missti samband við einn þeirra.

Ferðalagið hófst klukkan fjögur í nótt að íslenskum tíma. Mjaldrarnir flugu frá Sjanghæ til Íslands en þeir hafa dvalið í kínverska dýragarðinum Shang Feng Ocean World. Vélin sem flutti hvalina lenti hér á Íslendi rétt fyrir tvö og eftir tollafgreiðslu og skoðun dýralækna var lagt af stað Suðurstrandarveginn áleiðis að Landeyjarhöfn.

Fyrirhugað var að stoppa í Grindavík og á Selfossi en ákveðið var að hætta við það til að vinna upp tíma eftir að töf varð á brottför frá Kína. Skyndilega var hins ákveðið að stöðva á Selfossi rétt um klukkan átta í kvöld.

„Það fer ágætlega um þá. Það var ákveðið að stoppa núna þar sem við misstum samband við einn þeirra og við erum að kanna hvernig honum líður. Við þurfum að færa aðeins til, það er frauð í kringum þá til að styðja aðeins við þá og passa að þeir slasi sig ekki. Það er eitthvað búið að færast til en það er verið að skoða það,“ sagði Sigurjón Ingi Sigurðsson deildarstjóri hjá sérverkefnadeild TVG-Zimsen þegar Magnús Hlynur Hreiðarsson, fréttamaður okkar á Suðurlandi náði tali af honum á Selfossi.

Greiðlega gekk að ganga úr skugga um að allt var í lagi og var haldið áfram áleiðis að Landeyjarhöfn í lögreglufylgd. Ferðalagið hefur gengið vel.

„Þetta er búið að ganga eins og í sögu. Allt svona eftir áætlun frá því að þeir lentu. Þetta er búið að taka tíma. Þetta var flókið, þungt og erfitt að koma þeim úr vélinni, inn í bíla og gera klárt en Suðurstrandavegurinn hefur reynst okkur vel,“ sagði Sigurjón.

Herjólfur beið á eftir hersingunni og nú rétt fyrir tíu fóru bílarnir um borð í skipið áður en haldið verður á nýjar heimaslóðir Litlu-Hvítrar og Litlu-Grárrar.


Tengdar fréttir

Mjaldrarnir komnir til landsins

Sérútbúnir bílar keyra nú með hvalina frá Keflavík til Landeyjahafnar þar sem Herjólfur tekur við keflinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.