Erlent

Hlutfall koltvísýrings í andrúmslofti aldrei hærra

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Loftgæðamælingastöð NOAA í Mauna Loa á Hawaii.
Loftgæðamælingastöð NOAA í Mauna Loa á Hawaii. getty/Jonathan Kingston
Magn koltvísýrings í andrúmsloftinu heldur áfram að aukast með miklum hraða en meðaltal þess var í maí mánuði mældist 414,7 ppm í loftgæðamælingastöð Mauna Loa á Hawaii. Frá þessu er greint á heimasíðu NOAA (National Oceanic and Atmospheric Administration).Þetta er hæsta hlutfall koltvísýrings sem mælst hefur í þau 61 ár sem mælingar hafa farið fram á tindi hæsta eldfjalls Hawaii og sjöunda árið í röð sem greinileg og hröð aukning efnisins mælist í andrúmsloftinu. Hlutfall koltvísýrings hækkaði um 3,5 ppm á milli maí mánaðar 2018 og 2019 en í maí 2018 var það 411,2 ppm. Þetta er næsthæsta hækkun milli ára sem mælst hefur.Ppm stendur fyrir „parts per million“ en styrkur koltvísýrings er mældur í milljónustu hlutum og þýðir 414,7 ppm að af hverjum milljón loftsameindum eru 414,7 koltvísýringssameindir.Mánaðarlegt meðaltal koltvísýrings á Mauna Loa náði fyrst 400 ppm þröskuldinum árið 2014.„Það er mjög mikilvægt að eiga þessar nákvæmu, langtíma mælingar koltvísýrings til að geta skilið hversu hratt jarðefnaeldsneytismengun er að breyta loftslagi okkar,“ sagði Pieter Tans, háttsettur vísindamaður við alþjóða mælingadeild NOAA.Hlutfall koltvísýrings í andrúmsloftinu hækkar frá ári til árs og hlutfallsleg hækkun þess hækkar meira á hverju ári. Á fyrstu árum Mauna Loa stöðvarinnar mældist meðal hækkunin á hverju ári um 0,7 ppm, á níunda áratugnum var árleg hækkun 1,6 ppm og á þeim tíunda 1,5 ppm. Síðasta áratug hefur hækkunin verið um 2,2 ppm á ári. Allt bendir til þess að þessi aukning sé vegna aukinnar losunar, sagði Tans.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.