Fótbolti

Óvissa um framtíð Emils: Langar að vera áfram úti

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Óvissa ríkir um framtíð Emils Hallfreðssonar en samningur hans við Udinese rennur út í lok mánaðarins.

Emil yfirgaf Udinese fyrir ári síðan og gekk til liðs við Frosinone. Hann náði aðeins sex leikjum með Frosinone og meiddist illa í október.

Svo fór að komist var að þeirri niðurstöðu að rifta samningnum í janúar síðast liðinn. Emil gerði stuttan samning við sitt gamla félag Udinese, en hann rennur út í lok júní.

„Það eru búnar að vera ákveðnar þreifingar. Við sjáum hvað gerist eftir þessa landsleiki, þeir eiga eftir að klára sín mál úti,“ sagði Emil við Henry Birgi Gunnarsson á æfingu íslenska landsliðsins í dag.

Emil á þá ekki von á því að snúa heim til Íslands.

„Mér langar að vera áfram úti, ég er því miður ekki á leiðinni heim.“

En er hann búinn að ná sér að fullu eftir meiðslin? „Standið á mér er bara mjög gott. Eftir erfiða mánuði þá er ég búinn að ná mér ótrúlega vel,“ sagði Emil Hallfreðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×