Innlent

Segir Vigfús hafa hótað að kveikja í húsinu

Kolbeinn Tumi Daðason og Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifa
Mikill fjöldi slökkviliðsmanna barðist við eldinn á Kirkjuvegi þann 31. október.
Mikill fjöldi slökkviliðsmanna barðist við eldinn á Kirkjuvegi þann 31. október. Vísir/Egill
Elva Marteinsdóttir, sem ákærð er fyrir að láta hjá líða að gera það sem í hennar valdi stóð til að afstýra eldsvoða sem varð fólki að bana í húsi við Kirkjuveg á Selfossi í október í fyrra, segir Vigfús Ólafsson hafa hótað að kveikja í húsinu. Vigfús er ákærður fyrir manndráp með því að hafa orðið valdur að dauða fólksins með íkveikju.

Vigfús bjó í húsi föður síns en fólkið sem lést var á efri hæð hússins.

Elva tjáði sig við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Suðurlands í dag. Hún lýsti miklum geðrænum vandamálum sem hún glímdi við og mikilli neyslu í húsinu við Kirkjuveg.

Minntist hún þess að aðdragandi að íkveikju Vigfúsar hefði verið rifrildi milli hennar, Vigfúsar og konunnar sem lést.

Elva, sem var töluvert skýrari í frásögn en Vigfús í dómsal í morgun, lýsti því hvernig hún hefði slökkt í eld sem kviknað hefði í pítsukassa í húsinu og notað til þess bjór. Atburðarásin sé þó í mikilli móðu og allt í einu var kominn heilmikill eldur.

Stofan hafi verið full af reyk og gangurinn sömuleiðis. Fólkið sem lést hafi verið á efri hæð og þangað hafi Vigfús reynt að fara en ekki þolað reykinn. Hann hefði verið vel meðvitaður um að fólkið væri á efri hæðinni.

Minnið í móðu

Hún hefði sjálf reynt að fara upp á efri hæðina en Guðmundur hefði rekið hana niður, sagt að hann væri að leggja sig. Hún hefði ekki hringt í Neyðarlínuna. Hún sagði minnið í mikilli móðu varðandi þennan dag enda hefði neysla hennar í gegnum árin verið mjög mikil.

Elva sagði að þau hefðu aðeins drukkið bjór þennan dag. Hún hefði ásamt hinni látnu reynt að verða sér úti um önnur fíkniefni en það ekki gengið upp.

Þá viðurkenndi Elva að hafa áður reynt að kveikja í húsinu. Lýsti hún að um skrípaleik hefði verið að ræða en þá hefðu þau kveikt í sófaborðinu. Í það skiptið hefðu aðeins þau Vigfús verið í íbúðinni.

Vigfús sagði fyrir dómi í morgun að í umrætt skipti hefði hann sjálfur hringt í Neyðarlínuna.

Framundan eru skýrslutökur yfir lögreglumönnum og vitnum. Reiknað er með því að aðalmeðferð standi út daginn og verði mögulega framhaldið síðar í júní.


Tengdar fréttir

Bað guð um að fyrirgefa sér í lögreglubílnum

Vigfús Ólafsson, sem ákærður er fyrir manndráp með því að hafa valdið eldsvoða sem varð tveimur að bana á Selfossi í október í fyrra, viðurkenndi í dómsdal í morgun að hafa verið að fikta með eld í aðdraganda þess að kviknaði í.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×