Fótbolti

„Bunny" valdi Bordeaux frekar en Man City, Bayern, PSG eða Juventus

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Khadija "Bunny" Shaw skoraði tvö mörk á móti Skotlandi í vináttulandsleik á dögunum.
Khadija "Bunny" Shaw skoraði tvö mörk á móti Skotlandi í vináttulandsleik á dögunum. Getty/Ian MacNicol
Khadija „Bunny" Shaw er verðandi stórstjarna í kvennafótboltanum og gæti slegið í gegn á HM kvenna í Frakklandi sem hefst í kvöld.

Khadija Shaw er 22 ára gömul, 180 sentímetrar á hæð og mjög öflugur framherji. Shaw hefur meðal annars skorað 31 mark í 22 landsleikjum fyrir Jamaíku.

Hún spilaði með Eastern Florida State College og University of Tennessee í bandaríska háskólanboltanum og lék síðan með Florida Krush liðinu í WPSL deildinni á síðasta ári.  

Nú er hins vegar komið að því hjá Khadija „Bunny" Shaw að velja sér lið í Evrópu. Hún valdi að spila með franska félaginu Bordeaux eins og sjá má hér fyrir neðan.





Val hennar vakti talsverða athygli enda var vitað um áhuga félaga eins og Manchester City, Bayern München, PSG og Juventus.

Khadija „Bunny" Shaw hefur verið í miklu stuði í lokundirbúningi Jamaíku fyrir HM í Frakklandi en hún hefur þegar skorað sjö landsliðsmörk síðan í mars.

Jamaíka er í riðli með Ástralíu, Ítalíu og Brasilíu á HM og fyrsti leikur liðsins er á móti Brasilíu á sunnudaginn kemur.

Þar fær Khadija „Bunny" Shaw tækifæri til að sýna heiminum á stóra sviðinu hversu öflugur leikmaður hún er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×