Innlent

Þriðji áhugaverðasti áfangastaður Evrópu í ár formlega opnaður

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það var kátt á hjalla þegar leiðin opnaði formlega í dag.
Það var kátt á hjalla þegar leiðin opnaði formlega í dag. Vísir/Tryggvi Páll
Norðurstrandarleiðin, 800 kílómetra löng ferðamannaleið sem spannar strandlengju alls Norðurlands, var formlega vígð í dag. Ný umferðarskilti hafa verið tekin í notkun samhliða opnunni.

Leiðin nær frá Hvammstanga í vestri að Bakkafirði í austri. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra opnaði leiðina á Hvammstanga en Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis sá um að klippa á borðann á Bakkafirði.

Hugmyndin er að á Norðurstrandarleiðinni geti ferðamenn  auðveldlega komist að því hvert sé hægt að fara og hvað sé hægt að gera á svæðinu.

Leiðin spannar alla strandlengju Norðurlands.Grafík/Gvendur

Brúni liturinn þekktur erlendis

Áhuginn á leiðinni er mikill, ekki síst eftir að ferðavísirinn Lonely Planet, setti leiðina á topplista hjá sér.

„Við sáum strax sama dag og þetta kom út að umferð um vefsíðuna okkar fjórfaldaðist og síðan höfum við verið að fá mjög margar fyrirspurnir um leiðinna, bæði frá einstaklingum, ferðaskrifstofum og blaðamönnum erlendum sem ætla að koma í sumar,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands en Markaðsstofan hefur stýrt verkefninu.

Samhliða vígslunni voru ný umferðarskilti kynnt til leiks. Búið er að setja niður 37 slík skilti víðs vegar um leiðina. Athygli vekur að þau eru brún, en það er góð ástæða fyrir því.

„Brúni liturinn er þekktur erlendis frá þannig að menn vita þá að hann er að segja þér að það er eitthvað aðdráttarafl framundan og síðan er þá myndmerki Norðurstrandarleiðar, eða logo Arctic Coastway á þessum skiltum. Ferðamenn eiga þá að átta sig á hvar á að beygja og svo segir það þeim að þau séu á réttri leið,“ segir Arnheiður.

Svona líta skiltin út.Vísir/Tryggvi

Ekki bara fyrir erlenda ferðamenn

Reiknað er með að landsmenn muni í framtíðinni sjá brún skilti víðar en á Norðurlandi.

„Það er búinn að vera mikill áhugi fyrir þessu og ég efa það ekki, um leið og stíflan brestur og það er búið að setja þau upp á einum stað þá muni aðrir koma,“ segir Sigurður Ingi Jóhansson, samgönguráðherra, en reglugerðarbreytingu þurfti til að skiltin gætu farið upp.

Markmiðið með leiðinni er fyrst og fremst að byggja undir heilsársferðaþjónustu á Norðurlandi, en hún er þó ekki eingöngu gerð fyrir erlenda ferðamenn.

„Vonandi býr þetta til nýja staði sem Íslendingar vissu ekki af á þessari leið og hvetur þá til að stoppa og njóta,“ segir Arnheiður.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×