Erlent

Risamótmæli í Hong Kong vegna nýs lagafrumvarps

Birgir Olgeirsson skrifar
Telja að Kínverjar geti nýtt frumvarpið til að herja á pólitíska andstæðinga sína.
Telja að Kínverjar geti nýtt frumvarpið til að herja á pólitíska andstæðinga sína. Vísir/EPA
Tugþúsundir ganga nú fylktu liði í Hong Kong til að mótmæla lagafrumvarpi sem er talið geta hjálpað kínverskum yfirvöldum að herja á pólitíska andstæðinga sína á svæðinu.

Verði frumvarpið að lögum yrði það til þess að hægt verður að framselja grunaða glæpamenn til meginlands Kína þar sem réttað yrði yfir þeim.

Eru mótmælin talin eiga eftir að verða þau stærstu frá árinu 2014 þegar íbúar Hong Kong mótmæltu afskiptum kínverskra yfirvalda af kosningu. Voru regnhlífar tákn mótmælanna árið 2014 en hundruð þúsunda tóku þátt.

Mótmælendur eru flestir klæddir í hvítt en mikill hiti er í borginni í dag.Vísir/AP
Yfirvöld í Hong Kong segja að í lagafrumvarpinu séu varnaglar sem eiga að geta komið í veg fyrir hægt sé að misnota hverskonar smugur sem þar gætu fundist.

Leiðtogi Hong Kong, Carrie Lam, hefur kallað eftir því að frumvarpið verði samþykkt fyrir júlí næstkomandi.

Stuðningsmenn frumvarpsins segja að í frumvarpinu sé að finna ákvæði sem eigi að verja íbúa gegn sem eru taldir sæta pólitískum eða trúarlegum ofsóknum.

Vilja gagnrýnendur meina að þessi fyrirhuguðu lög muni mylja enn frekar unda réttarkerfi Hong Kong.Vísir/Getty
Gagnrýnendur vilja hins vegar meina að þessi fyrrum breska nýlenda verði berskjölduð gagnvart gölluðu réttarkerfi Kína sem myndi mylja enn frekar undan réttarkerfi Hong Kong.

Mótmælendur í dag eru flestir klæddir í hvítt en þar má finna fólk úr öllum þrepum þjóðfélagsins; kaupsýslufólk og lögfræðinga, nemendur, stjórnmálaleiðtoga og trúarhópa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×