Innlent

Dúxaði með hæstu meðal­ein­kunn í sögu Kvenna­skólans

Sylvía Hall skrifar
Inga Lilja Ásgeirsdóttir á útskriftardaginn.
Inga Lilja Ásgeirsdóttir á útskriftardaginn.
Brautskráning Kvennaskólans í Reykjavík fór fram á miðvikudaginn síðastliðinn og útskrifuðust alls 167 nemendur af þremur brautum við hátíðlega athöfn í Háskólabíói.

Dúx Kvennaskólans í ár er Inga Lilja Ásgeirsdóttir og útskrifaðist hún með meðaleinkunnina 9,86. Einkunnin er sú hæsta sem gefin hefur verið við skólann en alls voru átján nemendur í útskriftarhópi þessa árs með yfir 9 í meðaleinkunn. Inga Lilja segir góða mætingu og áhuga á náminu vera ástæðuna fyrir góðum námsárangri.

„Ég bara mætti og tók prófin,“ sagði Inga Lilja létt í bragði þegar blaðamaður náði tali af henni en sem stendur er hún stödd í Austurríki ásamt kærasta sínum og hyggja þau á frekara ferðalag um Evrópu. 

Aðspurð hvort námið hafi tekið allan hennar tíma á meðan skólagöngunni stóð segir Inga Lilja svo ekki vera. Hún hafi alla tíð unnið með skóla frá fjórtán ára aldri, stundar píanónám við Tónlistarskóla Garðabæjar auk þess að æfa dans.

Vissi að hún ætti séns 

Inga Lilja hafði verið með hæstu einkunn bæði fyrsta og annað árið sitt í skólanum og kom það henni því ekki mikið á óvart að sigla einnig því þriðja í höfn og tryggja sér titilinn sem dúx skólans.

„Ég vissi alveg að ég ætti möguleika á því en ég hélt kannski að þau væru búin að láta viðkomandi vita fyrir fram þannig ég var ekki að búast við því á athöfninni sjálfri.“

Sjálf segist hún hafa mestan áhuga á raungreinum en hún hlaut verðlaun fyrir frábæran árangur í efnafræði á athöfninni á miðvikudag. Þá er stefnan sett á efnaverkfræði í Háskóla Íslands strax í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×