Fótbolti

Ögmundur: Búið að vera áhugi hjá stærri liðunum í Grikklandi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ögmundur Kristinsson lék alla leikina með gríska liðinu AEL Larissa á síðustu leikinn í grísku úrvalsdeildinni og vakti hann athygli í Grikklandi.

Ögmundur gekk í raðir gríska liðsins á síðasta ári og gerði þá tveggja ára samning við liðið. Hann var kosinn leikmaður ársins hjá félaginu á sinni fyrstu leiktíð.

„Þetta er búið að vera gott tímabil hjá mér persónulega og deildin kom mér á óvart. Það eru góð gæði og þrusu flottir leikmenn og sterk lið,“ sagði hann í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Það sést í Evrópu hvað stærstu liðin eru sterk en okkur hefur gengið ágætlega með þau í ár. Það sýnir að liðið okkar getur átt góða leiki og haldið í við þau sterkustu.“

Ögmundur hefur nú spilað bæði í Skandinavíu og í Hollandi en hann segir að það sé meiri barátta í Grikklandi.

„Ef maður ber þetta saman við Holland þar sem er alltaf spilað út frá markmanni en Grikkarnir eru blóðheitari þar sem er barátta og læti. Það eru aðeins meiri gæði en í Skandinavíu; betri leikmenn og lið.“

Frammistaða Ögmundar vakti athygli á síðasta tímabili og hann segir að nokkur lið hafi áhuga.

„Það er búið að vera einhver hiti. Umboðsmennirnir eru að vinna vinnuna sína. Það er búið að vera áhugi hjá stærri liðunum í Grikklandi en svo sér maður hvað gerist,“ sagði markvörðurinn knái.

Viðtalið við Ögmund má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×