Fótbolti

Landsliðskona vill frekari rannsóknir á tengslum krossbandsslita og tíðahringsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordan Nobbs missti af stærstu hluta tímabilsins með Arsenal og missir líka af HM í Frakklandi í sumar.
Jordan Nobbs missti af stærstu hluta tímabilsins með Arsenal og missir líka af HM í Frakklandi í sumar. Vísir/Getty
Ensk landsliðskona í knattspyrnu sér mikil tengsl á milli krossbandsslita og tíðahringsins eftir að hafa fundið það á eigin skinni.

Jordan Nobbs er frábær leikmaður en hún missir af HM kvenna í Frakklandi í sumar vegna slíkra hnémeiðsla. Hún er leikmaður Englandsmeistara Arsenal og enska landsliðsins.

Hin 26 ára gamli miðjumaður hefur ekkert spilað síðan í nóvember þegar hún sleit krossband í leik á móti Everton.





Nobbs er á því að tíðahringurinn hafi haft mikil áhrif þegar hún meiddist. Hún byrjaði á túr um morguninn á sama degi og hún sleit krossbandið á móti Everton.

„Áður en ég meiddist þá vissi ég ekki af því að margar konur hafi slitið krossband þegar þær eru á túr,“ sagði Jordan Nobbs í viðtali við breska ríkisútvarpið.

Rannsóknir benda til þess að krossbandsslit, alvarlegustu hnémeiðslin, séu algengari hjá konum en körlum.

Ein af ástæðunum er að estrógen, hormón sem losnar þegar konur eru á túr, getur aukið á teygjanleika liðamóta. Það eykur síðan líkurnar á alvarlegri meiðslum þegar íþróttamaður snýr upp á hnéð.

„Ég var mjög þreytt þessa viku og þetta var fyrsti dagurinn minn á túr. Ég er ekki að segja að þetta sé ástæðan en dæmin sýna að svo margar konur hafa meiðst svona á hné þegar þær voru á túr,“ sagði Jordan Nobbs sem er varafyrirliði enska landsliðsins þegar hún er heil.





Jordan Nobbs vill frekari rannsóknir á tíðahringnum og krossbandsslitum.

„Ég vissi ekki mikið um krossbandið og bjóst aldrei við að slíta mitt. Það var barnalegt hjá mér,“ sagði Nobbs sem hefur spilað 56 leiki fyrir enska landsliðið.

„Hvað vita félögin okkar, sjúkraþjálfararnir og vísindamennirnir mikið um stöðu mála þegar við erum á túr? Það þurfa að vera frekari rannsóknir á þessu svo að við getum passað upp á að íþróttafólk geri allt rétt til að minnka líkurnar á hnémeiðslum,“ sagði Nobbs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×