Fótbolti

Tottenham búið að skipuleggja sigurskrúðgöngu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Vannstu titil ef þú fórst ekki með hann í bíltúr um bæinn ofan á rútu?
Vannstu titil ef þú fórst ekki með hann í bíltúr um bæinn ofan á rútu? vísir/getty

Tottenham hræðist greinilega ekki hið margumtalaða „jinx“ og er búið að skipuleggja fagnaðarlæti og skrúðgöngu ef liðið vinnur Meistaradeild Evrópu.

Það skapaðist nokkur umræða í gær um það að Selfyssingar hefðu gert allt til þess að koma í veg fyrir að þeir yrðu Íslandsmeistarar í handbolta. Búið var að panta sérmerkta Íslandsmeistaraboli, það var búið að skipuleggja flugeldasýningu, fá tónlistarmann í fagnaðarlætin og þar eftir götunum en liðið átti þó eftir að tryggja sigurinn.

Strákarnir frá Selfossi gefa lítið í mýtur og hjátrú um jinx og völtuðu yfir Hauka og fögnuðu vel í Íslandsmeistarabolunum sínum í gær. Strákarnir í Tottenham virðast ekki trúa á ill álög heldur því þeir eru búnir að skipuleggja fögnuð ef liðið vinnur Meistaradeild Evrópu.

Tottenham spilar við Liverpool í úrslitaleiknum í Madríd laugardagskvöldið 1. júní. Daginn eftir verður liðið komið aftur til Lundúna og þá skal farið í rútuferð um bæinn með bikar á lofti eins og vani er orðinn á að meistaralið geri.

Félagið er ekki bara búið að skipuleggja fagnaðarlætin innan félagsins heldur gekk það svo langt að tilkynna dagskrána á heimasíðu sinni í dag.

„Við búumst við því að rútuferðin taki um klukkutíma. Svið verður sett upp fyrir framan heimavöllinn þar sem leikmenn og þjálfarateymi mæta með bikarinn,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Það mun svo koma í ljós hvort þessar áætlanir Tottenham hafi sett ill álög á liðið eða kannski er allt slíkt á baki brotið eftir sigur Selfyssinga í gær.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.